Orkusjóður

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 16:40:49 (4409)

1999-03-06 16:40:49# 123. lþ. 79.24 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv. 49/1999, HG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[16:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, frv. til laga um Orkusjóð, hefur verið til umfjöllunar í hv. iðnn. frá því á haustþingi og er nú komið í endanlegan búning sem hv. formaður nefndarinnar hefur gert grein fyrir.

Ég hef út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta. Ég tel að hér sé um jákvætt mál að ræða sem verði til þess að efla Orkusjóð og stuðla að nytsamlegri starfsemi á hans vegum, möguleikum til styrkveitinga til ýmissa gagnlegra verkefna. Ég vek athygli á því að í brtt. nefndarinnar er að finna áherslur sem mega teljast á vissan hátt nokkuð nýjar á vegum Orkusjóðs og horfa til skoðunar á ýmsum þáttum sem varða orkumálin. Þá á ég sérstaklega við 1. tölul. brtt. nefndarinnar þar sem gert er ráð fyrir að Orkusjóður geti styrkt sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talda fræðslu og upplýsingastarfsemi, svo og hagrænar athuganir í orkumálum og umhverfisathuganir í tengslum við orkurannsóknir.

Ég held að það skipti mjög miklu að rannsóknir á þessum sviðum öllum og fræðslustarfsemi verði efldar til þess að ná fram hagrænni gagnkvæmri orkunotkun. Kannski hefur óþarflega lítill gaumur verið að því gefinn á undanförnum árum að spara orku. Við Íslendingar höfum stundum það orð á okkur að við höldum ekki mjög fast um krónur og aura og hugsum stundum ekki um að hægt er að ná verulegum ávinningi með því að leita leiða til sparnaðar. Þá er ekki bara verið að spara fyrir viðkomandi heimili og atvinnufyrirtæki heldur líka í fjárfestingum í orkufyrirtækjum og þannig hægt að ná fram aukinni hagkvæmni og fjárhagslegum sparnaði.

Það sem lýtur að hagrænum athugunum í orkumálum varðar m.a. möguleika á að ná fram hagkvæmum breytingum, þar á meðal í sambandi við álitamál við uppbyggingu mannvirkja eins og t.d. umhverfisþættina sem hér er gert ráð fyrir að Orkusjóður geti lagt fé til að styrkja, eins og vikið er að í brtt. nefndarinnar, þ.e. umhverfisathuganir í tengslum við orkurannsóknir. Þar er af mörgu að taka og mikil nauðsyn að efla starfsemi.

Það hefur m.a. verið talað um athuganir á umhverfisáhrifum og að réttmætt væri að meta til fjár það sem tapast í náttúrunni við rask og mannvirkjagerð til þess að afla orku. Þó að innlendar orkulindir eins og vatnsaflið séu endurnýjanlegar, þá mæðir það verulega á umhverfi og breytir umhverfi mjög varanlega í ríkum mæli. Þar þurfa menn að fara að með gát. Eins og menn þekkja er það mikið matsatriði og reyndar deiluatriði hvernig að skuli standa og til þess að leiða í ljós sem best áhrifin þá þarf að taka þessa þætti með inn í heildardæmið.

Í vissum tilvikum má segja að ef reiknað er hagrænt, þá sé réttmætt að reikna það einnig inn í verðlagninguna, ef menn bara meta til fjár. Hins ber einnig að gæta að ýmis náttúrufyrirbæri og náttúrugæði verða ekki metin til fjár og tengjast meira viðhorfum, siðrænum viðhorfum þar á meðal og tilfinningum. Slík viðhorf eiga einnig að vega þungt í sambandi við meðferð mála.

Þetta vildi ég nefna í sambandi við frv. Í nefndinni hefur verið ágætt samkomulag um afgreiðslu málsins eins og nál. og brtt. bera vott um.