Tilkynning um nýjan þingmann

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 10:34:18 (4410)

1999-03-08 10:34:18# 123. lþ. 80.91 fundur 328#B tilkynning um nýjan þingmann#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[10:34]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Á seinasta fundi sl. laugardag tilkynnti Svavar Gestsson að hann afsalaði sér þingmennsku. Sæti hans tekur 1. varaþm. af lista Alþb. í Reykjavíkurkjördæmi, Guðrún Helgadóttir, og verður hún 17. þm. Reykv. Kosningatala þeirra sem ofar eru á listanum breytist samkvæmt venju og verður Bryndís Hlöðversdóttir 8. þm. Reykv. og Ögmundur Jónasson 12. þm. Reykv.

Ég býð Guðrúnu Helgadóttur velkomna til þingstarfa. Hún er ekki með öllu ókunnug þingstörfum. Drengskaparheit sitt undirritaði hún 1979 og kjörbréf hennar fyrir þetta kjörtímabil hefur verið samþykkt.

Guðrún Helgadóttir hefur tilkynnt forseta að hún muni eiga aðild að þingflokki óháðra.

Í dag, 8. mars, er alþjóðadagur kvenna. Hinn nýi þingmaður er 19. konan í þingmannahópnum og svo stendur á að tvær konur sitja nú á Alþingi sem varamenn þannig að hlutur kvenna er réttur þriðjungur.

Þegar sá okkar þingmanna sem lengsta setu hefur átt á þingi kom fyrst til þings 1963, að afstöðnum alþingiskosningum þá um sumarið, var ein kona í hópi 60 þingmanna. Má því segja að nokkuð hafi þokast síðan. Sex þjóðir hafa hærra hlutfall kvenna á löggjafarþingi. Samtökum kvenna eru sendar góðar kveðjur úr þessum sal.

Þessi dagur, 8. mars, er jafnframt merkur minningardagur í sögu Alþingis. Þann dag fyrir 156 árum, árið 1843, gaf Kristján konungur VIII út tilskipun um endurreisn Alþingis, tilskipun sem að efni svaraði til kosningalaga og þingskapa. Tilskipunin var gefin út til að efna fyrirheit konungs frá 20. maí 1840, um stofnun ráðgjafarþings á Íslandi.

Loks má nefna að 55 ár eru nú liðin frá því að Alþingi afgreiddi frv. um stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, frv. sem síðar var samþykkt við þjóðaratkvæðagreiðslu síðari hluta maímánaðar 1944.

Alls þessa er gott að minnast á þessum degi.