1999-03-08 11:48:00# 123. lþ. 80.14 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[11:48]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þeir sem greiða atkvæði gegn þessari tillögu eða taka ekki afstöðu til hennar neita að taka til skoðunar að erlendi herinn sem hér er í landinu hverfi á brott. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum tekið afdráttarlausa afstöðu til þessa máls. Við viljum ekki að NATO-herstöð sé á Íslandi.

Á síðustu tímum tíðkast hjá þeim sem vilja koma sér hjá því að taka afstöðu til hitamála samtímans, ekki síst á það við um utanríkismálin, að segja það eitt að um málin þurfi að ræða, það þurfi að skoða kost og löst á Evrópusambandsmálum, það þurfi að segja kost og löst á hernum, það þurfi að segja kost og löst á NATO og gefa sér helst góðan tíma, helst nokkra mannsaldra til málfundarins. Þannig tala þeir sem ekki vilja taka afstöðu eða vilja fela afstöðu sína fyrir kjósendum. Stjórnmál eiga vissulega að snúast um það að segja kost og löst á málum, en í stjórnmálum verður líka að taka afstöðu og það þarf að gera í þessu máli sem öðrum.

Allir þeir sem ekki telja (Forseti hringir.) það náttúrulögmál að hér verði NATO-her til frambúðar hljóta að segja já við þessari tillögu og það geri ég.