Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:16:41 (4436)

1999-03-08 13:16:41# 123. lþ. 80.25 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv. +, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég býst nú ekki við að menn mundu treysta sér til þess að sjá fyrir hvort aðstæður verði þannig eftir þrjú til fjögur ár í þjóðfélaginu að mönnum þætti þá rétt að efna til tvennra kosninga. Það getur farið eftir því hvernig ástatt er í þjóðfélaginu hvort menn telja það rétt eða óvarlegt jafnvel að gera það, eins og menn þekkja.

Í annan stað vil ég nefna að áður hefur ekki tekist þó þetta víðtæk samstaða um kjördæmabreytingu, svo mikla kjördæmabreytingu eins og hér er verið að framkvæma. Það er þakkarefni að milli flokkanna sem slíkra næst sú samstaða að allir flokksformennirnir eða oddvitar allra flokkanna sameinast um að flytja þetta mál.

Þó er það svo, þrátt fyrir þessa ríku samstöðu sem ég nefni svo, að væntanlega er ekki hægt að finna einn einasta þingmann og fá hann til að koma hér upp og segja: Þetta er frv. eins og ég vildi nákvæmlega hafa það. Það gengur í hina áttina gagnvart þessari miklu samstöðu.

Ég get alveg tekið undir það sem 1. þm. Reykv. og fyrrum borgarstjóri, að mér finnst ekki æskilegt í sjálfu sér að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi. Ég sé á því annmarka. Ég sé ekki út af fyrir sig á því neina þörf fyrir Reykjavík sem slíka, ég get ekki fært rök fyrir því. Á hinn bóginn samþykkti ég það fyrir mitt leyti í því skyni að ná fram sáttum því að þeir sem unnu að þessum málum af hálfu flokkanna töldu að það væri forsenda þess að ná mætti allvíðtækri sátt um málið. Og þá féllst maður á það sáttarinnar vegna.

Ég vil líka taka fram að þær síðustu breytingar sem gerðar hafa verið í meðferð málsins af hálfu Alþingis hafa enn gengið til móts við sjónarmið þeirra sem hafa talið að tillögurnar hafi í upphafi gengið um of á hag landsbyggðar, þannig að þar hefur aðeins verið slegið til baka þó að hv. þm. teldi ekki nóg að gert, þar eru þó stigin ákveðin skref.