Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 13:45:19 (4447)

1999-03-08 13:45:19# 123. lþ. 80.33 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi sem er á þskj. 978 og er 585. mál þingsins.

Á undanförnum árum hafa af og til heyrst raddir sem hvetja til sértækra aðgerða stjórnvalda í því skyni að laða hingað erlenda framleiðendur kvikmynda. Þetta er vel þekkt meðal samkeppnislanda okkar og hefur víða reynst vel.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstakt hvatakerfi til eflingar kvikmyndaiðnaði í landinu. Tillagan er gerð í kjölfar niðurstöðu starfshóps sem skipaður var af iðnaðarráðherra 14. október síðastliðinn, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hópurinn fékk það hlutverk að fjalla um og gera tillögur um aðgerðir stjórnvalda til að efla kvikmyndaiðnað á Íslandi og laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn.

Tillagan gerir ráð fyrir að komið verði á fót sérstöku hvatakerfi þannig að fyrir fram ákveðið hlutfall framleiðslukostnaðar sem til fellur hér á landi við gerð kvikmyndar verði greitt til baka þegar verkinu lýkur. Skýrt verði kveðið á um skilyrði vegna þessa, aðgerðin verði tímabundin og falli úr gildi í árslok 2005. Starfshópurinn telur að kerfi sem þetta hafi þá kosti að vera einfalt og gagnsætt, það þjóni jafnt innlendum sem erlendum kvikmyndaframleiðendum, það hvetji til uppbyggingar atvinnugreinarinnar á allra næstu árum og sé til þess fallið að efla innlenda kvikmyndagerð samfara því að erlend fyrirtæki sjái sér hag í starfsemi hér á landi. Lagt er til að komið verði á fót sérstöku endurgreiðslukerfi sem þykir einfalt í stað ýmiss konar skattaívilnana sem erfitt er að fylgja eftir í framkvæmd og eru til þess fallnar að mismuna atvinnugreinum í skattalegu tilliti.

Við mat á mögulegum stuðningsaðgerðum íslenskra stjórnvalda vegna eflingar kvikmyndagerðar hér á landi hafði starfshópurinn einkum eftirfarandi að leiðarljósi: Að aðgerðirnar auki áhuga erlendra kvikmyndafyrirtækja á starfsemi hérlendis, að aukin útgjöld ríkissjóðs vegna aðgerðanna taki mið af auknum tekjum, að aðgerðirnar séu einfaldar og gagnsæjar, að fyllsta jafnræðis sé gætt við stuðning stjórnvalda við fyrirtæki í greininni, að aðgerðirnar séu tímabundnar en gildi þó nægilega lengi til að þær verki hvetjandi á fjárfestingar í greininni og að þær efli innlendan kvikmyndaiðnað.

Með því að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn eykst þjálfun íslenskra kvikmyndagerðarmanna, unnt verður að auka tækjakost kvikmyndaiðnaðarins hér á landi og síðast en ekki síst að koma Íslandi, náttúru landsins og menningu á framfæri með þátttöku stórra erlendra kvikmyndaframleiðenda.

Gert er ráð fyrir að kerfið verði byggt þannig upp að endurgreitt verði tiltekið hlutfall af kostnaði við framleiðslu kvikmyndanna. Skilyrði er að kostnaðurinn falli til hér á landi. Beiðni um endurgreiðslu verður að berast áður en framleiðslan hefst og verður metið hvort forsenda er fyrir endurgreiðslu. Með beiðninni fylgdu þá gögn, svo sem kostnaðaráætlun, sem gæfu glögga mynd af umfangi verksins, hvernig fjármögnun væri háttað, ásamt staðfestingu fjármögnunaraðila, ef hann er ekki framleiðandi, o.fl. Ef iðnaðarráðuneytið teldi beiðnina endurgreiðsluhæfa gæfi það út vilyrði til framleiðanda um að tiltekið hlutfall af kostnaði sem til félli hér á landi yrði endurgreitt að lokinni framleiðslu hér. Að framleiðslunni lokinni yrði að leggja fram endurskoðað kostnaðaruppgjör þar sem fram kæmi skipting kostnaðar. Þá er gert ráð fyrir að félaginu verði slitið að lokinni framleiðslu og þar með tryggt að það hafi staðið skil á opinberum gjöldum hér á landi. Ákvörðun um endurgreiðslu byggðist á kostnaðaruppgjörinu þar sem metið yrði hvaða kostnaður yrði endurgreiðsluhæfur.

Með slíkri framkvæmd telur hópurinn að takast mætti að bjóða fram verulegan stuðning við kvikmyndagerð á Íslandi sem þó tæki alltaf fullt mið af þeim tekjum sem ríkissjóður hefði af starfseminni. Kerfið væri öllum opið og því nytu innlendir framleiðendur þess á við aðra.

Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að framleiðslukostnaður myndar megi ekki vera lægri en 80 millj. kr. Gert er ráð fyrir fullri endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins ef framleiðslukostnaður verkefnis er hærri en 120 millj. kr. en skertu endurgreiðsluhlutfalli ef framleiðslukostnaður verkefnis er á bilinu 80--120 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu er heimilt að endurgreiðsla hluta framleiðslukostnaðar nemi 12% kostnaðar 1999--2002 og 9% kostnaðar 2003--2005. Hafi umsækjandi hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands til framleiðslu sömu myndar getur hann ekki hlotið endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Innlendir kvikmyndagerðarmenn hafa raunar bent á að einnig kæmi til greina að fenginn styrkur úr Kvikmyndasjóði kæmi til frádráttar endurgreiðsluhæfs framleiðslukostnaðar og kerfið væri þannig einnig opið þeim sem nytu styrkja sjóðsins.

Færa má fyrir því haldbær rök að á endanum renni umtalsverður hluti þeirra fjármuna sem varið er til kvikmyndagerðar á Íslandi í ríkissjóð. Má t.d. nefna beina skatta launafólks og launatengd gjöld, tekjuskatt fyrirtækja, auknar tekjur af sölu á vöru og þjónustu o.fl. Með því að greiða ekki út styrk fyrr en viðkomandi verkefni er lokið er tryggt að ríkissjóður verður ekki fyrir útgjöldum nema með auknum tekjum. Raunar má fyllilega gera ráð fyrir að ef sett verða lög um slíkt hvatakerfi verði það til þess að auka umsvif kvikmyndagerðar á Íslandi og þá mun ríkissjóður njóta þess í auknum tekjum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. iðnn. Alþingis.