Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 21:10:37 (4462)

1999-03-08 21:10:37# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[21:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er rétt hjá fulltrúum þeirra vinstri flokka sem hafa talað hér í kvöld að margt hefur breyst í íslensku samfélagi á því kjörtímabili sem senn er á enda. En hefur ekki íslenskt samfélag breyst til góðs? Og höfum við ekki með samstilltu átaki allra Íslendinga, stjórnvalda, félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins verið að byggja upp betra þjóðfélag en við áttum í upphafi þessa kjörtímabils?

Er það kannski þess vegna sem ýmsar alþjóðastofnanir álíta að Íslendingar séu í fremstu röð? Og er það ekki þess vegna sem við erum almennt metin í allra fremstu röð landa í heiminum? Eigum við ekki að meta það og eigum við ekki að virða það? Eigum við að tala um þjóðfélag okkar eins og t.d. fulltrúar óháðra tala hér um það? Mér finnst það vera vanvirðing við samfélagið.

Það er hins vegar rétt að við getum gert betur og það eiga allir stjórnmálaflokkar sínar hugsjónir. Og það á Framsfl. Það eru engin slagorð. Það eru hugsjónir sem byggjast m.a. á því að atvinna sé fyrir alla, að hér sé velferðarþjóðfélag sem m.a. felst í því að við eigum góða velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, öflugar menntastofnanir, að við lifum í blönduðu samfélagi borgar og dreifðra byggða, að allir Íslendingar hafi möguleika á því að velja sér framtíð og atvinnu, að við búum við sem minnsta ógnun, hvort sem er innan frá eða utan frá. Við viljum hreint umhverfi, fagra og óspillta náttúru. Við viljum hindrunarlítil samskipti við aðrar þjóðir og við viljum þjóðfélag þar sem maðurinn er í öndvegi og fólkið í fyrirrúmi.

Ég gæti svo sem alveg trúað því að ekki yrðu miklar deilur milli okkar á Alþingi um slík markmið. En það eru greinilega mjög skiptar skoðanir um það hvernig hægt sé að ná þessum markmiðum. Það sem skiptir þar mestu máli er sá góði grunnur sem við höfum byggt upp. Hann er hér kallaður slæmur grunnur og menn tala um að það hafi verið afar slæmt að eitthvað hafi breyst í íslensku samfélagi. Þessi efnahagslegi stöðugleiki er það verðmætasta sem við eigum. Á honum þurfum við að byggja og við þurfum að byggja á því samfélagi sem við höfum byggt upp.

Í öðru lagi skiptir nýting auðlindanna sköpum í þessu sambandi. Auðlindir hafsins reynum við að nýta þannig að verðmætasköpunin sé sem mest. Auðvitað hefur það kerfi sem við höfum byggt upp ýmsa galla. En það hefur marga kosti. Og það getur enginn borið því í mót né vefengt að það hafi ekki skapað enn meiri verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Það þarf hins vegar að vera í stöðugri endurskoðun og það er í stöðugri endurskoðun. Nú á þessu Alþingi komu stjórnmálaflokkar sér saman um hvernig vinna skyldi að endurskoðun þess máls. En hér er að heyra á fulltrúum stjórnarandstöðunnar að þeir kannist bara ekkert við það og hafi ekkert ætlað sér að taka þátt í því starfi, þó að góð sátt hafi verið um það.

[21:15]

Það skiptir líka miklu máli hvernig við nýtum auðlindir landsins, orkulindirnar og allt sem fylgir þeim. Um það eru greinilega deilur á Alþingi. Fulltrúar vinstri manna tala þannig að almennt sé ekki rétt að nýta orkulindirnar, við skulum taka sem dæmi á Austurlandi. Það séu perlur sem eigi að varðveita og ekki að hreyfa við, jafnvel þótt fólkið sem þar býr vilji fá að nýta auðlindirnar, þessar orkulindir, og umgangast náttúruna um leið af nærgætni eins og fólkið hefur alltaf gert í gegnum aldirnar. Engin leið er að lifa í þessu landi öðruvísi.

Við þurfum líka að efla hugvit landsmanna og mannauð. Það er að verða stærri og stærri þáttur í þjóðfélagi okkar sem skiptir meira og meira máli. Þess vegna þurfum við að byggja upp öflugri menntastofnanir og hlúa að því að hér sé ávallt menntun sem er í fremstu röð.

Við höfum lagt góðan grunn. Hvernig kemur sá grunnur fram?

Hann kemur m.a. fram í því að atvinnuástandið er betra en oftast áður. Við höfum skapað mjög mörg störf á þessu kjörtímabili, markmið sem núverandi stjórnarandstaða dró mjög í efa að væri hægt. Enda talar núverandi stjórnarandstaða þannig að hún hefur almennt ekki trú á því að hægt sé að gera slíka hluti enda virðist hún ekki vilja hreyfa við nokkrum hlut.

Við erum með öflugri þjónustu í heilbrigðismálum en nokkru sinni fyrr. Við höfum aukið útgjöld til heilbrigðismála mjög mikið. Hins vegar talar stjórnarandstaðan á Alþingi eins og þar hafi ekkert gerst. Af hverju hefur verið hægt að auka útgjöld til heilbrigðismála? Það er vegna þess að meiri verðmætasköpun hefur verið í þjóðfélaginu. Það er grunnurinn sem við höfum byggt á.

Við höfum getað lækkað skatta, sem hefur aukið kaupmátt fólksins í landinu, sem skiptir afar miklu máli. Við þurfum að spyrja okkur þeirra spurninga: Ef við viljum skapa meira svigrúm á næsta kjörtímabili til að leiðrétta kjör fólksins, hvernig eigum við að nota það svigrúm? Eigum við að nota það svigrúm til þess að lækka prósentu tekjuskattsins? Eða eigum við frekar að nota það svigrúm, a.m.k. fyrst í stað, til þess að draga úr skerðingum í tryggingarbótum, til þess að draga úr skerðingum í barnabótum? Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að það gangi fyrir að draga úr þeim skerðingum og lagfæra mál, t.d. örorkulífeyrisþega og ýmissa annarra áður en við förum í að lækka skattprósentu.

Við þurfum að ná um þetta sátt, m.a. við aðila vinnumarkaðarins, vegna þess að skattamál hljóta alltaf að koma til umfjöllunar þegar við ræðum um sátt á vinnumarkaði.

Mjög góður árangur hefur náðst í menntamálum að mínu mati og þar erum við á réttri braut. Við þurfum að gera meira í þeim málaflokkum og ég held að um sé enginn ágreiningur á hv. Alþingi. En á sama tíma hefur okkur tekist að reka ríkissjóð hallalaust og okkur hefur tekist að lækka fjármagnskostnaðinn mjög mikið. Hér er talað um frelsi á fjármagnsmarkaði og aðila sem eru að hagnast á fjármagnsmarkaði. Það er rétt. Þar hefur orðið breyting á. Íslendingar eru nær hinu alþjóðlega samfélagi í þeim efnum. Samhliða hefur fjármagnskostnaður stórlækkað, fjármagnskostnaður heimilanna, fjármagnskostnaður fyrirtækjanna. Ef lausnir vinstri manna hefðu gengið fram á Íslandi þá skal ég lofa þeim að fjármagnskostnaðurinn væri miklu hærri en hann er í dag. Skiptir það engu máli fyrir fólkið? Er það eitthvað sem á bara að líta fram hjá? (ÖJ: Er verið að tala um húsnæðiskerfið?) Húsnæðiskerfið hefur verið endurskipulagt og vaxtakostnaðurinn í húsnæðiskerfinu hefur lækkað verulega.

Hver er staða Íslands í samfélagi þjóðanna í dag? Ég tel að hún sé afar sterk. Við höfum náð ágætum samningum við Bandaríkjamenn á sviði varnarmála. Við höfum náð samningum í flestöllum deilumálum okkar í sambandi við fiskveiðimál. Við eigum gott samstarf við Evrópusambandið og staða Íslands í samfélagi þjóðanna er mjög traust. Þessi grunnur skiptir að sjálfsögðu öllu máli og hann þarf að varðveita.

Við höfum sagt í Framsfl. að stjórnmál snúist um fólk og kosningar um traust. Við höfum skilgreint okkur á miðju íslenskra stjórnmála og við erum út af fyrir sig afar fegnir því að nútímajafnaðarmenn á Íslandi ætla að halda við vinstri stefnu og kenna sig við vinstri stefnu því að það er hlutur sem jafnaðarmenn í löndunum í kring gera ekki. Við höfum enga trú á þessum vinstri stefnum sem menn hafa verið að beita á undanförnum árum. Við teljum að samfélagið sé svo breytt, það sé svo miklu flóknara að stefnan fram miðjuna sé það sem skipti máli.

Framsfl. hefur t.d. mikið talað um félagshyggju og ég hygg að Framsfl. hafi verið fyrsti flokkur á Íslandi til að kenna sig við félagshyggju. En menn verða líka að hafa í huga að til að geta rekið sterka stefnu sem kennd er við félagshyggju verður jafnframt að byggja á markaðslausnum. Það verður að tryggja frelsi í viðskiptum og það verður að tryggja að hér sé frjálst og öflugt atvinnulíf.

Ég heyri á vinstri mönnum að þeir hafa engan áhuga á þessu atvinnulífi og þeim finnst ekki skipta neinu máli að hér sé öflugt atvinnulíf. Það sem skipti máli sé fyrst og fremst að borga út úr ríkissjóði. Það skipti afar litlu máli hvað þar er til. En það er einmitt breytingin sem hefur orðið á stjórnmálum í Evrópu að jafnaðarmenn viðurkenna mikilvægi öflugs atvinnulífs. Það er sorglegt að það skuli ekki hafa gerst hjá vinstri mönnum á Íslandi.

Þau mikilvægustu mál sem eru nú fram undan í íslensku þjóðlífi og munu skipta sköpum á næsta kjörtímabili er sókn í atvinnumálum, áframhaldandi uppbygging velferðarkerfisins, breytingar í byggðamálum, í menntamálum og traust staða í utanríkismálum. Framsfl. er nú sem fyrr tilbúinn að axla ábyrgð í þessum stóru málaflokkum. Við trúum því að við getum gert þar mikið gagn og við óskum eftir því að fólkið treysti okkur til þess að axla þar ábyrgð. Ef við fáum það traust ætlum við okkur að standa undir því eins og við höfum staðið undir því trausti sem við fengum í síðustu kosningum.