Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 21:23:35 (4463)

1999-03-08 21:23:35# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[21:23]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Að þessu sinni ber eldhúsdag á Alþingi upp á 8. mars, alþjóðlegan baráttudag kvenna. Það er táknræn áminning fyrir mig sem er kjörin á Alþingi fyrir Kvennalistann. Sérframboð kvenna hafa náð miklum árangri í jafnréttismálum en framtíðin kallar á breyttar leiðir. Því kalli ætlar Samfylkingin að svara. Því tala ég nú sem einn af mörgum fulltrúum úr nýjum og öflugum þingflokki Samfylkingarinnar.

Hvaða möguleikar blasa við okkur Íslendingum handan við aldamótin? Hvað verður um börnin okkar í heimi örra tæknibreytinga? Fyrir mér sem samfylkingarsinna er eitt stærsta viðfangsefni framtíðarinnar að efla mannauðinn þannig að tækifærin sem við höfum nýtist sem best til að ná fram almennri hagsæld fyrir almenning úti um allt land.

Flestir eru sammála því að fjárfesting einstaklinga og þjóðfélags í menntun og menningu sé sú öruggasta sem til er. Menntun er samfélagseign sem má ekki stjórnast af markaðshagsmunum einum saman. Ákvörðun um menntastefnu er ákvörðun um þjóðfélagsgerð.

Hvers konar hæfileika þarf að hafa til að standa sem best að vígi við óþekktar aðstæður 21. aldarinnar? Fólkið sem framtíðin virðist brosa við er að sjálfsögðu margbreytilegt en eftirsóknarverðast er, samkvæmt fjölmörgum spám og skýrslum, fólk sem er fært í samskiptum, er fært um að afla sér þekkingar til hugar og handar, er sveigjanlegt, er opið í hugsun, skapandi og með frjótt ímyndunarafl, hefur löngun til að vera í sífelldri þróun, þekkir eigin menningu, hefur sterka sjálfsmynd, er fært í tungumálum, kann á tölvur, hefur tilfinningu fyrir fegurð og eigin umhverfi. Af öllu þessu á viðkomandi að verða betri manneskja og að eflast að siðferðisþroska.

Þessir hæfileikar eiga að koma sér jafn vel fyrir atvinnulífið og fjölskyldulífið. Nauðsynlegt er að átta sig á að framfarir og tækni geta rúið manninn öllum mannlegum eiginleikum. Rætt er um að á 21. öldinni felist vandinn ekki lengur í að undirbúa fólk undir ákveðna þjóðfélagsgerð heldur í að fólk þurfi færni til að geta skilið umhverfið og hegðað sér á ábyrgan og heiðarlegan hátt.

Á nýafstaðinni ráðstefnu Kvenréttindafélags Íslands kom enn einu sinni fram gífurlegur munur á náms- og starfsvali kynjanna. Launamunur kynjanna var að hluta til skýrður með því. Þar var einnig sagt frá menntasmiðju kvenna á Akureyri, frá skapandi námi að skapi kvenna sem er einmitt í takt við lýsingarnar að framan. Námið var hagnýtt, skapandi og sjálfstyrkjandi með áherslu á sjálfsþekkingu, samfélagsþekkingu, tungumál og tölvur. Viðfangsefnin voru allt frá dansi til draumrannsókna, handverki til tölvuverkefna. Árangurinn var góður þar sem aðeins ein kona er enn eftir á atvinnuleysisskrá.

Það skyldi þó ekki vera að hin eftirsótta þekking framtíðarinnar safnist nú í vaxandi mæli hjá konum þó að vinnumarkaðurinn hafi ekki enn áttað sig á því þar sem störf þeirra eru að stærstum hluta hjá hinu opinbera?

Í formlegum menntakerfum ríkir tilhneiging til að leggja áherslu á þekkingarsöfnun á kostnað annars náms. Nú er brýnt að skilja menntun á víðtækari hátt. Oft heyrist talað um að fólk þurfi að mennta sig og endurmennta sig til margra starfa á lífsleiðinni. Það skiptir öllu máli að símenntun og endurmenntun verði efld í góðri samvinnu opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins.

Ákvarðanir í menntamálum snerta allt þjóðfélagið. Forsenda þeirra er lýðræðisleg umræða, ekki bara um markmið hennar og lokatakmark heldur ekki síður um það hversu miklu fjármagni skuli varið til menntunar. Stefna Samfylkingarinnar er að auka framlög ríkisins til rannsókna og menntamála til samræmis við það sem best gerist meðal annarra þjóða.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hér á landi eru fleiri karlar og konur virk á vinnumarkaði en í nokkru öðru EES-landi. Meðalvinnutími fólks á viku er hæstur hér á landi og fleiri börn fæðast á hverja konu en í hinum EES-löndunum. Þessar staðreyndir segja okkur að við verðum að vanda vel til þeirrar þjónustu sem börnin okkar fá á öllum skólastigum, ekki síst til kennaramenntunar og aðbúnaðar kennara. Þá er þörf á átaki til að tryggja samveru barna og foreldra, hvort sem það gerist með bættu fæðingarorlofi beggja foreldra, foreldraorlofi eða styttum vinnutíma.

Það er stefna Samfylkingarinnar að bæði konur og karlar geti tekið virkan þátt í atvinnulífi og fjölskyldulífi og sinnt borgaralegum skyldum. Þá er mikilvægt að muna í öllu uppeldisstarfi að lýðræðisleg þátttaka snýst ekki aðeins um það að fá að kjósa á fjögurra ára fresti, heldur miklu fremur um hitt að taka virkan þátt í því samfélagi sem maður lifir og hrærist í helst frá blautu barnsbeini. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.