Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 21:30:09 (4464)

1999-03-08 21:30:09# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[21:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fái Samfylkingin jafnmikið fylgi í komandi þingkosningum og skoðanakannanir gefa vísbendingu um er það krafa um að Samfylkingin leiði næstu ríkisstjórn. Flokkar eiga að vera farvegur fyrir hugsjónir fólks og lífsviðhorf. Í grófum dráttum hafa tekist á tvenns konar meginsjónarmið meðal Íslendinga, sjónarmið jafnræðis og sjónarmið sérhyggju.

Við sem aðhyllumst lífsviðhorf jafnréttis höfum fram að þessu verið sundruð í of marga hópa. Nú myndum við nýtt stjórnmálaafl, samfylkingu um ný viðhorf og nýja lífssýn. Við viljum hefja til vegs á ný sjónarmið samhjálpar, réttlætis og jafnaðar. Við viljum samfélag þar sem allir fái lifað og starfað með fullri reisn.

Það sem einkennir kjörtímabilið sem senn er liðið er vaxandi misrétti og stéttarskipting. Þrátt fyrir góðærið eru fjölmennir hópar út undan, aldraðir, öryrkjar, einstæðir foreldrar og láglaunafjölskyldur. Þróunin er sú að peningaöflunum í þjóðfélaginu sem maka krókinn á kostnað alþýðu manna er sífellt gert auðveldara að mala gull í kvörninni. Ákvarðanataka um helstu perlur íslenskrar náttúru hefur verið sett á fárra manna hendur. Eignarréttur landeigenda að auðlindum hefur verið festur í sessi. Lénsherrar á sjó og á landi geta því rakað til sín miklum fjármunum frá íslenskum skattgreiðendum.

Helsta markmið Samfylkingarinnar er að snúa þessari þróun við og breyta leikreglunum. Það segir sig sjálft að jafnréttissjónarmið hafa átt erfitt uppdráttar á slíkum tímum. Þeim mun mikilvægara er að sem allra fyrst verði alger umskipti við landstjórnina. Ísland á að vera fyrir allar stéttir, alla hópa, en ekki bara hina ríku.

Sú nýja lífssýn sem Samfylkingin vill gefa ungu fólki inn í nýja öld felst m.a. í vilja til að fjármagna þá nýsköpun atvinnulífsins sem byggir á aukinni þekkingu, hugviti og menntun. Við lifum í heimi þar sem landamærin skipta æ minna máli þegar ungt fólk er að velja sér starfsvettvang. Við verðum að gera þjóðfélag okkar fýsilegt fyrir ungt fólk. Þjóðfélag okkar verður að standast samkeppni og samanburð um lífskjör og atvinnumöguleika. Við eigum að auka samvinnu okkar við erlenda markaði og menningarsamfélög, stuðla að opnu, alþjóðavænu og arðbæru samfélagi sem býður þegnum sínum upp á möguleika til fagurs mannlífs.

Í nýrri lífssýn okkar felst að málefni fjölskyldunnar fái aukið vægi. Nauðsynlegt er að afnema tekjutengingu barnabóta og að húsaleigubætur verði skattfrjálsar. Átak í uppbyggingu á leiguhúsnæði verður forgangverkefni Samfylkingarinnar.

Sú nýja lífssýn sem við viljum bjóða eldra fólki, öryrkjum, einstæðum foreldrum og láglaunafólki er öryggi, öryggi í lífsafkomu og möguleikar til lifandi og skapandi þátttöku í þjóðfélaginu. Sú nýja lífssýn sem við boðum felur í sér sátt milli kynslóðanna. Allir þjóðfélagsþegnar eru mikilvægir. Sú nýja lífssýn sem við viljum gefa almenningi felst í meiri trúnaði milli þegnanna og fulltrúa þeirra í opinberum störfum. Sú nýja lífssýn sem við boðum felur í sér að auka lýðræðið með margvíslegum hætti. Við viljum auka þegnréttindi, m.a. með því að opna fleiri möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sú nýja lífssýn sem við boðum felur í sér ábyrga stefnu gagnvart umhverfinu og náttúru landsins. Hún felur í sér metnað til að bæta kjör alls almennings og gæta meira jafnréttis í hvívetna. Í atvinnulífinu viljum við að gætt verði meira jafnræðis milli samkeppnisaðila.

Sú nýja lífssýn sem við boðum felur í sér að auka vægi almannasamtaka, hagsmunasamtaka almennings, við landstjórnina þegar við komumst til valda.

Við kynnum nýja lífssýn til sóknar í íslenska þjóðfélaginu þar sem tillit er tekið til allra þjóðfélagsþegna. Við tökum mið af síbreytilegu umhverfi og þróun á alþjóðavettvangi. En umfram allt byggjum við á gömlum og góðum gildum, lífsviðhorfum sígildrar jafnaðarstefnu, frelsi, jafnrétti og bræðralagi.

Góðir Íslendingar. Lýðræðisþjóðfélög eru sífellt í mótun. Landstjórnin á að endurspegla lífsviðhorf fóksins og hagsmuni þess. Á lýðveldistímanum hafa þó stjórnmálaöfl sem kenna sig við jafnrétti og jafnræði verið sundruð í marga flokka. Þess vegna hafa þau ekki verið þess umkomin að hafa áhrif í þjóðfélaginu í samræmi við þann fjölda sem aðhyllist slík lífsviðhorf. Í raun og veru er mikill meiri hluti Íslendinga í hjarta sínu jafnaðarmenn.

Nú eru algjör þáttaskil í íslensku þjóðfélagi. Félagslegu öflin hafa sameinast og bjóða fram samfylkingu til sigurs, samfylkingu til breytingar og betra lífs. Látum stóra drauminn rætast, að sjónarmið jafnaðar verði ríkjandi og að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn. --- Góðar stundir.