Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 22:00:20 (4468)

1999-03-08 22:00:20# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[22:00]

Siv Friðleifsdóttir:

Góðir landsmenn. Nú er afar farsælu og árangursríku kjörtímabili að ljúka, kjörtímabili framfara, tímabili þar sem áherslur Framsfl. hafa komið sterkt fram, enda um tveggja flokka stjórn að ræða þar sem Framsfl. hefur haft helming ráðherra.

Það var alrangt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að Halldór Ásgrímsson hefði farið um landið og boðað að við færum í vinstri stjórn við síðustu kosningar. Það var alls ekki svo. Þá gengum við óbundin til kosninga eins og nú.

Kaupmáttur hefur aukist meira á þessu kjörtímabili en í nágrannalöndunum. Aukinn kaupmáttur og stöðugt efnahagsástand er eitt það mikilvægasta fyrir fjölskyldurnar í landinu. Góð efnahagsstefna og fjölskyldustefna verður ekki slitin í sundur.

Við höfum minnkað atvinnuleysið. Yfir 12 þúsund ný störf verða til fyrir aldamótin en það var eitt aðalkosningamál okkar framsóknarmanna við síðustu kosningar. Að hafa atvinnu er hverjum manni mikilvægt því atvinnuleysi er eitt mesta böl sem þekkist. Atvinnutækifærin eru fjölbreyttari nú en fyrr. Dæmi úr mínu kjördæmi eru breytingar á verslunarrekstri flugstöðvarinnar sem hefur skapað mörg ný störf. Nú stendur stækkun hennar fyrir dyrum sem mun auka enn frekar á gróskuna þar.

Ný atvinnugrein sem hefur rutt sér til rúms er sú starfsemi sem fram fer á vettvangi rannsókna í líftækni og möguleikum tengdum rannsóknum með miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Heilbrigðismál eru í góðum farvegi. Framþróun hefur orðið í uppbyggingu heilsugæslunnar. Samvinna sjúkrahúsa hefur aukist. Byrjað er að byggja nýjan barnaspítala en sjúk börn, aðstandendur þeirra og starfsfólk hafa undanfarna þrjá áratugi notið þjónustu í húsnæði sem var ekki sérhannað með börn í huga.

Forvarnir gegn reykingum og notkun eiturlyfja eru öflugri en nokkru sinni fyrr. Svona mætti lengi telja jákvæð framfaramál ríkisstjórnarinnar.

Miklar hræringar hafa átt sér stað á vettvangi flokkakerfisins á Íslandi. Alþfl., Alþb. og Kvennalistinn hafa gengið í eina sæng, fylkingarsængina. Nýleg skoðanakönnun sýndi að fylkingin hefur rétt úr kútnum þótt hún nái ekki kjörfylgi móðurflokkanna frá síðustu kosningum. Fyrir mér er stefna hennar eða það sem við höfum séð hingað til ekki trúverðug, enda er sjálfsagt erfitt að koma svo ólíkum öflum saman um trúverðuga stefnu. Fylkingin vill fara út úr hernaðarbandalögum en samt vera í hernaðarbandalagi. Hvernig gengur það upp?

Fylkingin setti fram þá stefnu fyrir stuttu að gera allt fyrir alla án þess að huga að því hvernig ætti að fjármagna herlegheitin. Ekki var það heldur trúverðugt. Það er einmitt slík stefna sem maður óttast að fylkingin standi fyrir, að eyða um efni fram, hækka bara skattana og láta ríkið taka erlend lán sem komandi kynslóðir þurfa svo að borga fyrir með versnandi lífskjörum.

En hvað með Sjálfstfl.? Það sem ég óttast mest varðandi hann er að fylgi hans verði of sterkt, jafnvel svo sterkt að hann nái einn að mynda næstu ríkisstjórn. Slíkt er varhugavert að mínu mati. Það er ekki æskilegt að einn flokkur verði við völd án aðhalds samstarfsflokks. Þótt Sjálfstfl. sé fylking sundurleitra sjónarmiða mundi öfgafull hægri stefna eiga auðvelt uppdráttar væri Sjálfstfl. einn við völd. Vegna þessarar stöðu er brýnt að Framsfl. fái styrk í næstu kosningum.

Framsfl. hafnar öfgafullum hægri og vinstri sjónarmiðum. Framsfl. hefur sterka forustu og styrk til að vinna að góðum málum fyrir þjóðarhag. Því er afar brýnt að hann fái góða kosningu í næstu alþingiskosningum.

Góðir áheyrendur. Í dag er alþjóðadagur kvenna. Margt hefur áunnist á kjörtímabilinu í jafnréttismálum undir forustu okkar framsóknarmanna. Ný framkvæmdaáætlun um jafnréttismál hefur verið samþykkt, umfangsmikið tilraunaverkefni um starfsmat sem leið til að uppræta launamun milli karla og kvenna hefur verið framkvæmt og frv. til nýrra framsækinna jafnréttislaga var lagt fram.

Ljóst er að konur eru allt of fáar í heimi stjórnmálanna. Það þarf að gera stjórnmálaþátttöku meira aðlaðandi fyrir konur og ungt fólk. Að undanförnu hef ég haft tækifæri til að ferðast út í kjördæmin með opna þverpólitíska fundi um konur og stjórnmál. Á þeim fundum hef ég fundið þann mikla pólitíska kraft sem býr í konum, kraft sem íslenskt samfélag verður að nýta.

Uppstillingar á listum valda þó nokkrum vonbrigðum. Konum mun ekki fjölga neitt verulega í næstu kosningum. Yrðu úrslit kosninga nú í vor þau sömu og voru fyrir fjórum árum er ljóst að konum mundi fækka hjá Samfylkingunni, fjölga hjá Sjálfstfl. en standa í stað hjá Framsfl. Hið gleðilega er að konur eru að færast ofar á listum og má benda á að hjá Framsfl. leiða nú þrjár konur lista en ekkert stjórnmálaafl hefur fleiri konur sem leiða lista.

Í tilefni alþjóðlega kvennadagsins vil ég hvetja allt ungt fólk til að taka þátt í stjórnmálum og þá sérstaklega konur. Það er ekki lýðræði í reynd fyrr en konur til jafns við karla stjórna samfélagi okkar. --- Góðar stundir.