Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 22:19:58 (4471)

1999-03-08 22:19:58# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[22:19]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á því kjörtímabili sem senn er að ljúka hafa orðið stórstígar framfarir á öllum sviðum þjóðlífsins. Árangur ríkisstjórnarinnar blasir við öllum sem augu hafa að sjá og eyru að heyra. Við búum við efnahagslegan stöðugleika og í landinu er góðæri sem við höfum að stærstum hluta skapað okkur sjálf.

Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að allt önnur mynd blasi við. Í upphafi þessa áratugar var öldin sannarlega önnur. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnartaumunum 1991 voru efnahagsmálin í rúst. Á sama tíma þurfti að grípa til stórfellds niðurskurðar aflakvóta sem jók enn á þann vanda sem fyrir var og var hann þó ærinn. Í kjölfarið fylgdi atvinnuleysi sem reyndist okkur mjög þungbært þar sem það hefur ætíð verið aðalsmerki íslensks þjóðfélags að næg atvinna hefur verið fyrir alla. Það er hins vegar alls ekki raunin í flestum nágrannalöndum okkar þar sem viðvarandi atvinnuleysi þykir eðlilegt ástand. Það tókst að snúa vörn í sókn með markvissum aðgerðum í efnahagsmálum. Þar voru höfð að leiðarljósi heilbrigð samkeppni, ábyrgð og aukið frjálsræði í atvinnulífinu ásamt ráðdeild í stjórn ríkisfjármála.

Atvinnuleysið er nú úr sögunni, verðbólgudraugurinn hefur verið kveðinn niður og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur stórbætt stöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisbönkunum verið breytt í hlutafélög og lífeyrismálin og vinnulöggjöfin stokkuð upp. Aðhaldi er áfram beitt í ríkisfjármálum og ríkissjóður er nú rekinn með tekjuafgangi þrátt fyrir lækkun skatta. Fiskveiðistjórnarkerfið er að skila okkur árangri í aukinni fiskgengd og eflingu fiskstofnanna. Atvinnulífið blómstrar og menn sækja fram á nýjum sviðum þar sem reynir á menntun og þekkingu.

Starfsemi fyrirtækja eins og t.d. Marels, OZ og Íslenskrar erfðagreiningar er gleggsta dæmið um það að Íslendingar nýta sér tækniþekkingu til að byggja upp öflug fyrirtæki. Ungt vel menntað fólk sem hefur hingað til ekki átt þess kost að fá störf við sitt hæfi hér á landi hefur flykkst heim frá útlöndum og menntun er í vaxandi mæli metin til góðra launa.

Í landinu er stöðugt verðlag og vaxandi kaupmáttur. Það er raunar ævintýri líkast hve hratt kaupmáttur hefur aukist, eða um 18,5% á þremur árum. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar enda hefur þessi árangur vakið athygli erlendis og styrkt stöðu okkar á alþjóðlegum mörkuðum. Ísland er nú í fimmta sæti þeirra þjóða sem mestrar velferðar njóta í heiminum öllum.

En það þarf sterk bein til að þola góða daga og við þurfum svo sannarlega að halda vöku okkar svo þessi góði árangur verði viðvarandi í framtíðinni.

Óhætt er að fullyrða að ekkert skiptir jafnmiklu fyrir okkur Íslendinga nú um stundir og menntamálin. Það skiptir sköpum um stöðu okkar í samfélagi þjóðanna hvernig þar er að verki staðið. Við erum í harðri samkeppni við aðrar þjóðir á öllum sviðum og beittasta vopnið í þeirri baráttu er góð menntun.

Menntun grípur inn á öll svið samfélagsins.

Menntun er að gera hlutina vel.

Menntun er að búa yfir þekkingu til allra verka. Samgöngumál eru t.d. ekki bara sandur og sement og malbik, heldur liggur þar að baki áralöng menntun og þekking og þjálfun.

Menntun er fjölskyldumál. Menntun er hluti af þroskaferli einstaklingsins sem hjálpar honum að rækta hæfileika sína og þjálfa hug og hönd til nýtilegra starfa og styrkja þannig sjálfmynd sína og lífshamingju.

Gleymum því heldur ekki að menntun er líka traustasta undirstaða jafnréttismála. Framsókn kvenna í þjóðlífinu og hikleysi þeirra við að taka á sig ábyrgð og skyldur til jafns við karla byggist fyrst og fremst á því að þær geti vísað til góðrar menntunar.

Við Íslendingar eigum að setja metnað okkar í að skara fram úr á þeim sviðum sem við þekkjum best, í sjávarútvegi, í hátæknigreinum, upplýsingatækni og svo mætti lengi telja. Grundvallarbreytingar eru að verða á atvinnulífi okkar, þar sem hagvöxt má í vaxandi mæli rekja til þekkingar fremur en náttúrulegra auðlinda.

Sjávarútvegur er og verður undirstöðugrein, en nýir tíma kalla líka á meiri menntun þar og við eigum í framtíðinni hiklaust að verða best menntaða fiskveiðþjóð í heimi.

Á þessum vetri hafa verið mikil umbrot á vinstri væng stjórnmálanna. Nýir stjórnmálaflokkar hafa verið stofnaðir á sama tíma og aðrir hafa verið lagðir niður. Kvennalistinn, Alþfl. og Alþb. eru úr sögunni. Samfylkingin og grænt framboð taka við. Nýjasta uppákoman í þessum efnum varð nú í dag þegar Guðrún Helgadóttir sem kemur inn á Alþingi í stað Svavars Gestssonar, nýskipaðs sendiherra í Kanada, gekk til liðs við þingflokk óháðra. Þar með er strax byrjað að kvarnast úr hinum nýja þingflokki Samfylkingarinnar sem er innan við þriggja vikna gamall. Nú eru einungis fjórir þingmenn Alþb. eftir í Samfylkingunni af þeim níu sem skipuðu þingflokkinn í upphafi kjörtímabils.

Talsmenn Samfylkingarinnar hafa keppst við að láta líta út fyrir að á þeim bæ sé allt slétt og fellt en undir niðri krauma átökin og óánægjan. Það dylst engum og lítið þarf út af að bera til að kveikja í þeirri púðurtunnu sem Samfylkingin situr á.

Uppákoman í haust þegar Samfylkingin kynnti stefnu sína gleymist seint. Svo klaufalegur og ótrúverðugur var sá málatilbúnaður allur, fullur af óraunhæfum gylliboðum sem augljóst var að menn gátu ekki sýnt fram á að hægt væri að standa við. Lánleysi Samfylkingarinnar í þessum efnum sýnir þjóðinni glögglega hversu illa henni er treystandi til að koma að landstjórninni þegar hún ræður svo illa við að skipa innri málum sínum á þolanlegan hátt.

Góðir áheyrendur. Kostirnir í íslenskri pólitík eru óvenju skýrir fyrir komandi kosningar. Annars vegar er ábyrg stjórn undir forustu Sjálfstfl., hins vegar vinstra liðið með innbyrðis flokkadrætti og valdabaráttu. Sjálfstfl. hefur svo sannarlega sýnt að honum er treystandi til að leiða landstjórnina, hvort heldur er í andbyr eða meðbyr. Undir forustu hans hefur þjóðin lifað eitt mesta framfara- og hagsældarskeið í sögu sinni. Sjálfstfl. hefur sannarlega látið verkin tala. --- Góðar stundir.