Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:41:17 (4480)

1999-03-09 10:41:17# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:41]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Auðvitað er ákaflega sérkennilegt að horfa framan í þann veruleika að hæstv. ríkisstjórn hefur engan dómsmrh. og þegar beðið er um efnislega umræðu um mikilvægt mál fyrir allstóra byggð er ekkert um svör. Þá er vísað til þess að hæstv. dómsmrh. sé í fylgd forseta Íslands í Rómaborg og hæstv. dómsmrh. kvaddi raunar úr þessum ræðustóli í síðustu viku og lét þess getið að þetta væri í síðasta skipti sem hann stæði í þessum stóli. Ber þá að líta þannig á, herra forseti, að enginn dómsmrh. verði í orðaræðum og í viðræðum við þingið það sem eftir lifir? Ég tel þvert á móti mikilvægt að sitjandi dómsmrh. komi til umræðna um málið, kynni sér það í dómsmrn. hjá bærum mönnum og ræði það efnislega því að ekki er eingöngu um það að ræða að hæstv. dómsmrh. hafi einhverjar sérstakar skoðanir á málinu. Ríkisstjórnin hlýtur að hafa það líka í heild sinni. Málið er það stórt þrátt fyrir allt. Ég hvet því til þess, eftir umræðuna um störf þingsins og beiðni nokkurra þingmanna í þá veru að þessi umræða fari fram, ef ekki í dag þá í síðasta lagi á morgun. Ég sé öll efni til þess að það geti átt sér stað. Ég vil þrátt fyrir allt líta þannig á að við séum ekki dómsmálaráðherralaus þótt hæstv. ráðherra, Þorsteinn Pálsson, sé í útlandinu.