Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:47:15 (4484)

1999-03-09 10:47:15# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:47]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það kemur berlega í ljós að þetta er mál sem brennur á fjölda fólks. Uppgefnar ástæður til þessa gjörnings virðast heldur ekki rökheldar af hálfu yfirvalda löggæslumála á Suðurnesjum. Til dæmis virðist sem það fyrirheit sýslumanns að láta lögreglubíl fara í eftirlitsferð tvisvar til þrisvar á nóttu til Grindavíkur kosti bara í akstri bílsins ef miðað er við lítinn lögreglubíl yfir 1.500 þús. en kostnaðurinn sem skera á niður var þó aldrei nema 1.200 þús. Þetta hefði einhvern tíma verið kallað að spara eyrinn og kasta krónunni, hæstv. forseti. Eiga Grindvíkingar að horfast í augu við alvarlegar afleiðingar af skertri löggæslu vegna sparnaðar af þessari stærðargráðu?

Eitt af því sem fólk óttast í Grindavík í ljósi þess samdráttar sem orðið hefur hægt en örugglega frá því að lögregluembættið í Grindavík var sameinað Keflavíkurlögreglu er að lögreglustöðin í Grindavík verði lögð niður og bænum alfarið gegnt frá Keflavík á sama hátt og Sandgerði og Garði, en á þeim svæðum kvartar fólk mjög undan ónógri löggæslu. Ég mun beina skriflegri fyrirspurn til dómsmrn. og leita eftir svari við þessari spurningu. Það er mjög brýnt að aðstæður séu kannaðar ofan í kjölinn og litið til reynslunnar af hversu mörg útköll hefur verið um að ræða á liðinni tíð. Það er mikilvægt að öryggi fólks í heilum bæjarfélögum sé ekki teflt í tvísýnu, herra forseti.