Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:23:05 (4502)

1999-03-09 14:23:05# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:23]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóslega verulegur áherslumunur á milli okkar hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur til þessa máls því að í mínum huga hefur þetta ekkert með brandarabanka að gera. Í mínum huga eru hvalveiðar grafalvarlegt mál. Til þess að skýra og einfalda það sem við segjum í okkar áliti, því að eitthvað hefur vafist fyrir hv. þm. að fá botn í það, þá lýsum við því í fyrsta lagi yfir að við teljum að það eigi að nýta hvalastofna við Ísland, þ.e. það eigi að hefja hvalveiðar.

Hins vegar segjum við líka, og viðurkennum það, að viðhorf í veröldinni eru þess eðlis að það ber að fara varlega í þessum málum. Þetta er mjög viðkvæmt. Við segjum einfaldlega í áliti okkar og leggjum á það áherslu að þegar við gefum á þennan hátt nánast einhliða stríðsyfirlýsingu um að hefja hvalveiðar án þess að reyna að kynna okkar viðhorf, án þess að reyna að leggja kostnað í að kynna okkar viðhorf á erlendum vettvangi, ræða við aðrar þjóðir og gera kannski líkt og Norðmenn, sem lögðu mikið fé í það að kynna sín viðhorf áður en þeir hófu hvalveiðar, þá óttumst við að sá gassagangur sem meiri hlutinn vill hafa uppi í þessu máli geti orðið til þess að hagsmunir okkar skaðist verulega því að við erum þægilegt skotmark. Það er nú einfaldlega þannig. Við lifum meira og minna, enn sem komið er, á útflutningi á sjávarafurðum og erum því mjög viðkvæm fyrir áróðri gagnvart því. Í þessu ljósi og í því ljósi að almenn viðhorf í heiminum eru ekki endilega hlynnt hvalveiðum þá viljum við fara gætilega.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hægt sé að tengja álit eða aðvörunarorð af þessu tagi á nokkurn hátt við brandarabanka. En ég verð að segja alveg eins og er að húmorinn er mér ekki að skapi.