Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:27:58 (4505)

1999-03-09 14:27:58# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta tvö eða þrjú atriði sem fram koma í nál. minni hluta og fram komu í ræðu hv. framsögumanns þess.

Í fyrsta lagi kemur fram í nál. að minni hlutinn gerir athugasemdir við að meiri hlutinn skuli leggja til að Alþingi álykti að hefja hvalveiðar án þess að skilgreina nánar hvenær veiðarnar skuli hefjast.

Þetta er ekki nákvæmt. Í tillögunni er skilgreint hvenær þær eiga að hefjast. Það er ekki dagsett en það er tímasett. Það er sagt að þær eigi að hefjast hið fyrsta, það eigi að gefa ríkisstjórninni svigrúm til þess að kynna málið og undirbúa veiðarnar. En það kemur skýrt fram í nál. meiri hluta að miðað er við að veiðar geti hafist á næsta ári. Það er því nákvæmlega tímasett.

Í öðru lagi kemur fram í nál. minni hluta að hann gerir athugasemdir við að ekki skuli kveðið skýrt á um í tillögunni á hvaða dýrum skuli hefja veiðar. Það kemur mjög skýrt fram í tillögu meiri hluta nefndarinnar að veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Fyrir liggur álit og útgefinn kvóti í hrefnu og einnig í sandreyði. Svo verður líka í öðrum tegundum eftir því sem vísindalegt álit gefur tilefni til. Þetta eru því staðlausir stafir í nál. minni hluta.

Í þriðja lagi kom fram hjá hv. framsögumanni að þeim hefði ekki verið boðið að vera aðilar að nál. meiri hluta. Það er ekki rétt. Þeim stóð það til boða en afþökkuðu það. Hitt er rétt að þeir voru ekki með í að semja textann. Það var vegna þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði ítrekað gefið þær yfirlýsingar í nefndinni að hér væri um að ræða mál sem stjórnarliðið yrði að ráða til lykta og að stjórnarandstaðan kæmi ekki nálægt því.