Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:33:13 (4508)

1999-03-09 14:33:13# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður er farinn að upplifa sjálfan sig aftur og aftur eins og maður sé að endurtaka það sem maður sagði í síðustu ræðu. Ég fer hægt yfir þetta, virðulegi forseti, mjög hægt.

Í fyrsta lagi vil ég segja það að minni hlutinn er fylgjandi því að hvalveiðar verði hafnar. Það er klárt. (Gripið fram í.) Það kemur fram í nál., hv. þm.

Í öðru lagi geldur minni hlutinn varhug við því að þeirri stríðsáætlun sé fylgt sem má finna í meirihlutaálitinu. Þess vegna telur minni hlutinn það ábyrgðarhlut að samþykkja þáltill. eins og hún lítur út. Við teljum, virðulegi forseti, að nær hefði verið að leggja fram tillögu í þá veru að við mundum hefja hvalveiðar eftir 2--3 ár og nota þann tíma til að kynna málstað okkar eins og til að mynda Norðmenn hafa gert. Þetta kom fram í ræðu minni, hv. þm., og ég legg til að hv. þm. fylgist betur með þeim umræðum sem fara fram svo við þurfum ekki vera að lengja umræðuna og endurtaka æ ofan í æ.