Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:35:45 (4510)

1999-03-09 14:35:45# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við þegar ég sagði að samþykkt tillögunnar væri nánast vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina er í fyrsta lagi að tillögum nefndar, sem hv. þm. Árni Ragnar Árnason stjórnaði um að ríkisstjórnin gerði sérstaklega samþykkt um að framfylgja, hefur ekki verið framfylgt.

Þegar ég segi þetta á ég við að hér situr vitaskuld þingbundin ríkisstjórn sem nýtur trausts meiri hluta Alþingis. Þegar Alþingi tekur fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni eins og er gert í þessu tilviki, því að ríkisstjórnin hafði ályktað og samþykkt allt annað, hljótum við að vekja sérstaklega athygli á því. Þess vegna tel ég að samþykkt tillögunnar sé nánast vantraustsyfirlýsing á aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málinu. Það er það sem ég er að reyna að segja. Meiri hluti Alþingis ætlar að hafa samþykkt ríkisstjórnarinnar að engu. Það mætti kannski gerast oftar, virðulegi forseti, að Alþingi tæki fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni en það gerist ekki oft.

En það er rétt að vekja á því athygli loksins þegar það gerist.