Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 14:56:09 (4513)

1999-03-09 14:56:09# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[14:56]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er svo margt í ræðu hv. þm. sem ég þyrfti að gera athugasemd við að ég kem því ekki öllu að í stuttu andsvari. Mig langar að nefna örfá atriði.

Hann sagði erfitt að festa hendur á þeim áhrifum sem hvalveiðar mundu hafa á viðskipti okkar, þ.e. útflutning og ferðamennsku. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm., það er eiginlega ekki nokkur leið að festa hendur á því. Það er eitthvað sem kemur ekki í ljós fyrr en við hefjum þessar veiðar. Þess vegna hljótum við að verða að styðjast við reynslu annarra. Við hljótum að styðjast við reynslu Norðmanna sem tóku þennan slag fyrir fimm, sex árum undir miklum hótunum, eins og ég gat um í ræðu minni áðan. Þeim var hótað viðskiptaþvingunum, fækkun ferðamanna til Noregs og fleiru slíku. Ekkert af þessu gekk eftir. Ég tel engar líkur á að það gerist frekar hjá okkur. Ég nefndi reynslu Færeyinga áðan. Þetta er borðleggjandi hjá þessum þjóðum og því skyldum við frekar lenda í einhverjum hremmingum en þær?

Hv. þm. nefndi að ekki væri hægt að selja hvalaafurðirnar. Á það reynir ekkert meðan veiðarnar eru ekki leyfðar. Auðvitað segja allir nei meðan ekkert hvalkjöt er í boði. Það sem snýr að Alþingi er að leyfa veiðarnar og þeim sem ætla að stunda veiðarnar að selja afurðirnar. Þeir telja sig geta það. Það kemur þá í ljós.

Ef afurðirnar seljast ekki þá verður sjálfsagt ekki mjög mikið úr veiðum. Hv. þm. talaði um að hvalaskoðun og hvalveiðar færu ekki saman. Reynsla Norðmanna er allt önnur þessi fimm, sex ár sem þeir hafa stundað veiðarnar. Þeir fengu yfir 20 þúsund manns í hvalaskoðun í fyrra á sama tíma og þeir veiddu 642 hvali. Það merkilega við það var að þetta var á sömu slóðum, áhrifin voru nú ekki meiri en það. Menn voru að skoða hvali og veiða á sömu slóðum.

Í þriðja lagi lýsti hv. þm. efasemdum um þann ótta sem menn hafa af áhrifum hvalsins á fiskstofna okkar. Við hljótum náttúrlega að taka mark á vísindamönnum Hafrannsóknastofnunarinnar sem eru mjög færir á þessu sviði og hafa ítrekað bent á að við stöndum frammi fyrir því innan örfárra ára, ef við ekki hefjum hvalveiðar, að skera niður þorskveiðar okkar. Ég treysti mér ekki til þess að blása á þessa menn og segja þá fara með staðleysu.