Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:02:20 (4516)

1999-03-09 15:02:20# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég býst nú ekki við að það skipti miklu máli fyrir Norðmenn sem hvalveiðiþjóð hvort Íslendingar kaupi af þeim afurðir eða ekki. Ég held það skipti bara nákvæmlega engu máli. Hins vegar gæti það skipt máli fyrir Norðmenn og Íslendinga hvort hinn virkilega arðsami markaður í Austurlöndum fjær, í Japan, opnaðist fyrir þessar afurðir. Þar er einmitt óvissan.

Að öðru leyti vil ég segja að ég ber fulla virðingu fyrir sjónarmiði hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar sem hefur barist lengi fyrir þessu máli. Það vill bara svo til að við erum á öndverðum meiði um það hvernig taka eigi á málinu. Við það verðum við báðir tveir að lifa með fullri virðingu hvor fyrir öðrum. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.)