Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:33:04 (4522)

1999-03-09 15:33:04# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til umræðu á hinu háa Alþingi frá árinu 1993. Það kemur mér mjög á óvart að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli gera athugasemdir við að málið skuli vera lagt fram í óljósri vissu um afstöðu þingsins. Ég spyr á móti: Er óeðlilegt að leggja málið til úrskurðar Alþingis miðað við þann árafjölda sem málið hefur verið til umfjöllunar? Mér kom líka mjög á óvart að hann skuli álíta málið þannig að nánast sé ógerningur og ekkert vit í að leggja það fram án þess að full vissa sé fyrir stuðningi þingmanna við málið. Í annan stað kom mér mjög á óvart að hv. þm. skuli tala um að allt málið, sem Hafrannsóknastofnun hafi lagt fram, hljóti að vera á misskilningi byggt og veikum grunni. Þó hælir hann Hafrannsóknastofnun í hina röndina fyrir mikla vandvirkni. Ég verð að segja ég undrast hringlandaháttinn í málflutningi þessa ágæta þingmanns sem hefur flutt mjög mörg og góð mál á þingi.