Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:39:06 (4526)

1999-03-09 15:39:06# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var áhugavert að hlusta á hv. þm. Hjörleif Guttormsson flytja ræðu sína. Hjörleifur Guttormsson hv. þm. var á móti öllu eins og fyrri daginn, og það er nú merkilegt að vinstra græna framboðið ætlar að ,,prófilera`` sig með því að vera á móti öllu. Það kom skýrt fram við eldhúsdagsumræðurnar í gærkvöldi. Mér finnst það mjög merkilegt af því að hér er víst um umhverfisflokk að ræða sem vill væntanlega sjálfbæra nýtingu afurða og það á sem sagt að veiða fisk en ekki nýta hvali.

Hér var sagt að við hefðum ekki eins traustar upplýsingar og hægt væri að fá. Ég tel að ekki sé hægt að fá traustari upplýsingar. Málið er bara þannig að við verðum að taka þennan slag og ég tel að áhættan sé afar lítil. Þetta er eins og þegar við fórum út í að færa landhelgina út í 200 mílur, ekkert var hægt að fá traustari heimildir um hvað myndi gerast þá. Það var ekkert hægt að fara til Breta og segja: Er ekki allt í lagi að við færum bara út í 200 mílur? Er það ekki allt í lagi, strákar mínir? Að sjálfsögðu ekki. Þetta er því bara mál sem við verðum að taka á. Ég átta mig ekki á því hvort hv. þm. styður t.d. sjónarmið Samfylkingarinnar um að hvalveiðar beri að hefja eftir 2--3 ár. Er það eitthvað sem kemur til greina gagnvart hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni?