Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:41:56 (4528)

1999-03-09 15:41:56# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri ekki betur en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tali á svipuðum nótum og fylkingin gerir, þ.e. að sjálfsögðu beri að nýta alla stofna en rakkar svo niður öll rök sem koma fram í tillögum meiri hlutans frá sjútvn. Mér fannst líka mjög ankannalegt það sem kom fram hjá hv. þm. um að teflt væri á tæpasta vað þegar svo margir stjórnarþingmenn leggðu þetta mál fram í óvissu um afstöðu framkvæmdarvaldsins. Ég vil bara minna hv. þm. á að hér er þingræði og það er mjög eðlilegt að þingmenn leggi fram tillögu eins og þessa án þess að hafa gengið frá því við framkvæmdarvaldið. Reyndar hefði ég helst viljað að ráðherrarnir sætu ekki hér inni til að hafa eins mikil afskipti af málinu og þeir gera, af þingræðinu. Það er alveg ljóst að ég hef ekki áttað mig á málflutningi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og mér finnst hann tala á svipuðum nótum og fylkingin gerir, þ.e. að rétt sé að nýta alla stofna en finna síðan hvalveiðum allt til foráttu.