Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:43:05 (4529)

1999-03-09 15:43:05# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að leggja upp í neina kennslustund fyrir hv. þm. Hv. þm. reynir sjálfsagt að lesa sig til og lesa í mál eins og honum er fært, virðulegur forseti. En afstaða til hvalveiða hér og nú hefur lítið með það að gera hvort menn eru almennt þeirrar skoðunar sem er auðvitað forsenda fyrir allri nýtingu, að við höfum réttinn til að nýta auðlindir okkar. Ég vænti þess að við séum þó sammála um það atriði, við hv. þm. en það þýðir ekki um leið að við ,,verðum að`` eða ,,eigum að`` gera það hér og nú. Þar verða menn að horfa til átta og í þessu máli ekki aðeins til hinnar líffræðilegu leiðsagnar heldur líka til annarra þátta sem tengjast nýtingunni og á hvaða vað er verið að leita.

Spurningin um rétt manna til að flytja mál er alveg ótvíræður hér en það er mjög óvanalegt að fram komi 11 stjórnarþingmenn með einn til viðbótar frá Samfylkingunni og leggi til jafnafdrifaríka ákvörðun sem ekki er ljóst að studd sé af meiri hlutanum á Alþingi og sem ekki er ljóst að ríkisstjórnin treysti sér til að framfylgja því oft þreifa menn nú á milli yfir landamærin milli löggjafar- og framkvæmdarvalds.