Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:44:49 (4530)

1999-03-09 15:44:49# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi í ræðu sinni að sér fyndist allt of mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að Alþingi væri að upphefja ályktun sína frá því í febrúar 1983 vegna þess að hún hefði verið um tímabundið hvalveiðibann. Nú hefur hann trúlega átt við mig þegar hann nefndi þetta því ég lagði á þetta mjög mikla áherslu í ræðu minni. Ég gerði það vegna þess að ég tel að með ályktuninni 1983 hafi Alþingi verið að taka afstöðu til þess að við skyldum hætta hvalveiðum. Alþingi hefur síðan ekki fengist til að álykta um hvalveiðar. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að Alþingi skuli núna ætla að gera það með þessum hætti.

[15:45]

Í öðru lagi nefndi hv. þm. tillögur Hafrannsóknastofnunar og að vísan til þeirra væri á misskilningi byggð. Hann sagði eitthvað á þá leið að vísindamenn hefðu oftúlkað þessi gögn og að stjórnmálamenn væru að rangtúlka gögn þeirra. Ég kannast ekki við að hafa rangtúlkað þau, ég hef lesið mikið um þetta eftir Gísla Víkingsson og fleiri, setið tvær eða þrjár ráðstefnur þar sem farið var ítarlega yfir áhrif hinnar takmarkalausu fjölgunar hvalsins á fiskstofnana og hef trúað því sem þar hefur komið fram.