Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:47:35 (4532)

1999-03-09 15:47:35# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að þetta var tímabundið hvalveiðibann en samt litu menn á það sem áframhaldandi bann við hvalveiðum og hafa litið þannig á alla tíð síðan hvað sem hv. þm. segir.

Það er rétt hjá hv. þm., að hvölum fjölgar ekki takmarkalaust. Eitt af því sem fram hefur komið hjá vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar er að hvalastofnarnir séu trúlega í dag um 70% af því sem þeir verða að hámarki. Þeim muni þá fjölga um 43% í viðbót til að fara upp í hámarksstærð stofnsins. Út frá því hafa þeir reiknað tölurnar sem þeir hafa verið að gefa út. Að vísu tók ég fram að þetta væru ekki mjög nákvæm vísindi, hvað þeir ætu, en grófar tölur og ég held að stjórnmálamenn hljóti að verða að hlusta á varúðartal vísindamanna.

Hv. þm. nefndi hér áðan þýðingu skoðanakannana og taldi að menn væru þar fyrst og fremst að lýsa rétti okkar til að nýta sjávarstofnana. Ég minni þá í leiðinni á að það eru ekki bara skoðanakannanir heldur eru öll heildarsamtök sjómanna og útgerðarmanna, verkafólks og sveitarfélaga í landinu sama sinnis, vilja að veiðarnar séu hafnar á ný. Menn eru ekkert að því í gáleysi eða galgopaskap. Þetta er skoðun allra þessara aðila.

Að lokum, af því að þm. hv. hefur margítrekað að eiginlega standi eingöngu stjórnarsinnar að þessari tillögu, aðeins einn stjórnarandstæðingur, þá minni ég á að þegar tillagan kom fram þá voru stjórnarsinnar tíu og tveir stjórnarandstæðingar. Annar þeirra, hv. þm. Kristinn Gunnarsson var þá flokksbróðir hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, en mál hafa nú skipast þannig síðan að þeir hafa báðir skipt um flokk. Nú er því ekki nema einn stjórnarandstæðingur lengur flutningsmaður málsins.