Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 15:51:15 (4534)

1999-03-09 15:51:15# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SF
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[15:51]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég er einn af tólf flutningsmönnunum þessa máls í upphafi þings. Ég er þokkalega ánægð með þróun mála. Í nál. meiri hluta sjútvn., sem ég tel að hafi unnið nokkuð skynsamlega að þessu máli, er tekið undir meginefni tillögunnar og lagt til við Alþingi að álykta um að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta. Í framhaldinu er rætt um að ríkisstjórninni verði falið að standa fyrir nauðsynlegri kynningu á þessari ákvörðun Alþingis og hrinda henni í framkvæmd þannig að veiðarnar geti hafist sem fyrst.

Svo kemur hér setning sem ég tel afar mikilvæga. Þar stendur að miðað verði við það geti orðið eigi síðar en á næsta ári. Það hefur líka komið skýrt fram í málflutningi flutningsmanns, þ.e. talsmanns meiri hlutans, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að miðað sé við að það sé árið 2000, eða á næsta ári. Ég vil því þakka sérstaklega að þessi tímasetning kemur skýrt fram, bæði í ræðu og riti, þó að það sé reyndar ekki í sjálfri tillögunni.

Ég vil lýsa furðu á nál. minni hlutans. Það hefur komið fram í andsvörum fyrr í dag að ég tel að þetta nál. sé hvorki fugl né fiskur. Í byrjun er komið inn á það að menn telji að það beri að veiða hval. Í framhaldinu er nánast talað gegn því og klykkt út í lokin með því að segja að ábyrgðarhluti sé að afgreiða málið á þennan hátt. Ég átta mig því alls ekki á því hvert fylkingin er að fara með þessum málflutningi.

Ljóst er að afar skiptar skoðanir eru um þetta mál og í stuttu máli má segja að sjónarmiðin séu eitthvað á þá leið, virðulegi forseti, að þeir sem styðja hvalveiðar telji að eðlilegt sé að nýta hval eins og hverja aðra tegund í sjónum á sjálfbæran hátt. Það hefur komið fram að hvalurinn étur um 2 milljónir tonna af fiski úr sjó á hverju ári. Mig minnir að það gæti verið eitthvað um 10% sem hvalurinn gengur á þorskstofninn, ég man nú þessar tölur ekki nákvæmlega. Það er a.m.k. frekar hátt hlutfall.

Málflutningur þeirra sem styðja hvalveiðar gengur einnig út á að ef þessi slagur verði ekki tekinn núna og hvalveiðar hefjist þá séu einhverjar líkur á að næst mundu samtök, sem eru okkur tiltölulega fjandsamleg, fara út í að friða fisk, og friða t.d. þorsk sem yrði okkur afar þungbært og algjör dauðadómur yfir þjóðríki okkar.

Þeir sem telja að ekki sé tímabært að hefja hvalveiðar telja að hér gætu markaðir okkar skaðast verulega, sérstaklega Þýskalandsmarkaður, breski markaðurinn og markaðir í Bandaríkjunum. Rétt er að fólk í þessum löndum telur t.d. eðlilegt að horfa á mannfólk drepið í sjónvarpi. Fjölmargar bíómyndir og þættir sýna það og virðist í lagi að börn og fullorðnir horfi á. En ef hvalur eða selur er drepinn þá er það hræðilegt mál, menn skipta jafnvel um stöð. Það er því rétt athugað að almenningsviðhorfið er tiltölulega skrýtið í þessum löndum.

Það er einnig dregið til hjá þeim sem eru andsnúnir hvalveiðum að ferðaþjónusta okkar geti hlotið mikinn skaða af en það er þjónusta sem hefur vaxið verulega á síðustu árum og er orðinn mjög mikilvægur þáttur í okkar efnahag.

Ég las um daginn umfjöllun frá því að við ákváðum að stunda hvalveiðar í vísindaskyni á árunum 1986 og 1989. Þá kom fram að hér færi allt fjandans til ef við færum út í þessar vísindaveiðar, markaðir mundu hrynja og ferðmennskan þurrkast út.

En hver var reyndin? Ekkert af því sem rætt var um gerðist. Góð aukning varð í fiskútflutningi okkar og ferðamönnum til landsins fjölgaði. Sú aukning var yfir 30% á þessu tímabili. Mig langar að lesa aðeins upp úr þessu, virðulegur forseti, með þínu leyfi. Þetta eru gögn sem þeir hafa haldið til haga í Sjávarnytjum, en Kristján Loftsson og Jón Gunnarsson eru þar innstu koppar í búri. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr þessum gögnum.

Í blaðaviðtali í DV, miðvikudaginn 12. júní 1985, er haft eftir Magnúsi Gústafssyni, forstjóra Coldwater, undir fyrirsögninni ,,Hér eru gífurlegir hagsmunir í veði``. Þar segir:

,,,,Að sjálfsögðu erum við áhyggjufullir. Hér eru gífurlegir hagsmunir í veði ef þeim tekst að vekja andúð á okkar vöru,`` sagði Magnús Gústafsson forstjóri Coldwater Seafood Corporation, dótturfyrirtækis SH í samtali við DV vegna ummæla Van Noten, forsvarsmanns Monitor, samtaka 14 náttúruverndarfélaga, þar á meðal Greenpeace, um að íslenskri vöru í Bandaríkjunum verði hætta búin verði af vísindahvalveiðum Íslendinga. ,,Ég hef heyrt að þeir ætli sér að verða mjög herskáir verði af þessum vísindahvalveiðum,`` sagði Magnús.``

Síðan segir í Morgunblaðinu föstudaginn 16. ágúst 1985 undir fyrirsögninni ,,Hótunum rignir yfir viðskiptavini okkar``:

,,,,Því er ekki að leyna að við erum mjög áhyggjufullir vegna þeirra hótana sem dynja yfir vegna fyrirhugaðra hvalveiða Íslendinga í vísindaskyni. Ég var fyrr í vikunni í sambandi við forstjóra Long John Silver veitingahúsahringsins sem segir að það rigni yfir sig hótunum um að hefja áróðursherferð gegn neyslu íslensks fisks á veitingahúsum þeirra. Hann er mjög áhyggjufullur yfir þessu og það sama má segja um fleiri viðskiptavini okkar hér í Bandaríkjunum. Þeir óttast að þessar veiðar geti haft slæmar afleiðingar fyrir sína starfsemi,`` sagði Magnús Gústafsson forstjóri fisksölufyrirtækisins Coldwater í Bandaríkjunum í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær.``

Og hér er enn frétt frá fimmtudaginn 26. sept. 1985 úr Morgunblaðinu, undir fyrirsögninni ,,Þúsundir bréfa og látlaust hringt``:

,,,,Gæti skaðað íslenska hagsmuni,`` segir Hörður Bjarnason í íslenska sendiráðinu í Washington. ,,Síminn hringir látlaust þessa dagana í íslenska sendiráðinu í Washington DC og undanfarna viku hafa borist þangað um 10 þúsund bréf. Allir eru að mótmæla fyrirhuguðum hvalveiðum Íslendinga í vísindaskyni. Þetta er áhyggjuefni og enginn vafi á þessi herferð gæti skaðað íslenska hagsmuni,`` segir Hörður Bjarnason sendiráðunautur í Washington í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær. ,,Margir segjast ætla að taka þátt í skipulagningu aðgerða gegn okkur á viðskiptasviðinu, t.d. með því að hvetja fólk til að kaupa ekki íslenskan fisk eða ferðast ekki með Flugleiðum. Auk þess hafa borist hingað um 10 þúsund sérprentuð póstkort með almennum mótmælum gegn hvalveiðum okkar.````

Í DV mánudaginn 6. jan. 1986 segir undir fyrirsögninni ,,Gífurlegir hagsmunir eru í húfi``:

,,,,Íslendingar ætla að endurskoða ákvörðun um hvalveiðar,`` segir Magnús Gústafsson forstjóri Coldwater í Bandaríkjunum. ,,Þetta er hrikalegt mál.`` Undir lokin segir: ,,Ég tel að þessi ákvörðun Íslendinga geti verið sú afdrifaríkasta sem þeir hafa tekið í langan tíma,`` segir Magnús Gústafsson forstjóri Coldwater í Bandaríkjunum í viðtali við DV.``

[16:00]

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti. Ég var að vitna í viðtöl við þá sem höfðu hvað mestu áhyggjurnar og vöruðu við að hefja þessar vísindaveiðar. En þær hófust og hvað gerðist? Ég er að hugsa um að lesa upp úr Tímanum fimmtudaginn 9. janúar 1986, með leyfi hæstv. forseta: ,,Besta ár sem við höfum átt, segir Guðjón B. Ólafsson forstjóri.`` Undir fyrirsögninni ,,Coldwater`` segir: ,,Lítils háttar hagnaður``, segir Magnús Gústafsson forstjóri.`` Við skulum lesa meira af því sem haft er eftir Magnúsi, sem var með mikil gífuryrði áður en vísindaveiðarnar hófust. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þegar Magnús var spurður út í ummæli sem höfð hafa verið eftir honum í fjölmiðlum að undanförnu varðandi hvalveiðar Íslendinga í vísindaskyni sagði hann að meira hefði verið gert úr þeim en efni stæðu til. Því væri hins vegar ekki að neita að þessar hvalveiðar væru fiskseljendum áhyggjuefni því að hugsanlega gætu þær stórskaðað fiskmarkaði Íslendinga í Bandaríkjunum.`` Hér voru yfirlýsingarnar farnar að trappast niður.

Föstudaginn 17. janúar 1986 segir, væntanlega í grein úr Tímanum, með leyfi virðulegs forseta:

,,,,Vöruskortur aðalvandinn``, segir Guðjón B. Ólafsson. ,,Aðalvandamálið er vöruskortur, sérstaklega skortur á þorskblokk,`` hélt Guðjón áfram. ,,Það hefur orðið veruleg verðhækkun á blokkinni og erfitt að spá hvort hækkunin á eftir að fæla frá okkur kaupendur. Birgðir eru litlar og við erum ekki sloppnir fyrir horn enn. Febrúarmánuður gæti orðið tvísýnn hvað blokkina varðar. Þá höfum við misst af verulegum viðskiptum vegna skorts á karfa- og ýsuflökum og við eigum nánast enga rækju sem er slæmt vegna þess markaðsstarfs sem unnið hefur verið á því sviði.````

Hér segir síðar í sömu grein: ,,Besta árið. ,,Afkoman hjá Iceland Seafood hefur sennilega aldrei verið betra en á síðasta ári,`` sagði Guðjón Ólafsson.``

Svo mörg voru þau orð í tengslum við það sem átti sér stað í kringum vísindahvalveiðar okkar. Síðan fékk ég í hendurnar aðra úrklippu úr Morgunblaðinu föstudaginn 8. maí 1992, sem sýnir kannski smáviðhorfsbreytingu há sölusamtökunum. Þar er, með leyfi virðulegs forseta, haft eftir Jóni Ingvarssyni:

,,Í mínum huga er ekki spurning um að við munum hefja hvalveiðar að nýju. Það er okkur lífsnauðsyn vegna samhengis lífkeðjunnar í hafinu umhverfis okkur og okkar eigin hagsmuna í því sambandi.``

Við sjáum að eftir því sem tíminn líður kemur annað hljóð í strokkinn. Mér heyrist líka á þeim sem ég hef haft samband við í sjútvn. að þangað hafi komið Friðrik Pálsson frá SH og að mun jákvæðara hljóð hafi verið í þeim en um langan tíma.

Fyrr í dag kom fram að okkur hefur greint nokkuð á um hvort rétt væri að tímasetja skýrar þann atburð þegar við hefjum hvalveiðar. Sumir vilja fá skýra dagsetningu til að öruggt sé að veiðarnar hefjist og tefjist ekki. Aðrir hafa bent á að það sé ekki okkur í hag að tímasetja hvenær hvalveiðarnar eigi að hefjast því þá muni öfl andsnúin okkur fara í aðgerðir gegn okkur og því betra að hafa enga klára tímasetningu, byrja veiðarnar skyndilega öllum að óvörum. Niðurstaða sjútvn. miðar við þessa seinni aðferð, þ.e. að segja ekki í tillögunni árið 2000 eða annað ártal heldur hið fyrsta. Þar er því ekki sett föst dagsetning. Hins vegar kemur skýrt fram í nál. að miðað sé við að hvalveiðarnar geti hafist eigi síðar en á næsta ári. Ég tel þetta ásættanlega niðurstöðu.

Einnig kemur fram í nál. að nauðsynlegt sé að kynna þá ákvörðun Alþingis um leið og hvalveiðarnar hefjist og undirbúa málið mjög vel á erlendum vettvangi. Ég hef vissar efasemdir um hvernig eigi að gera þetta. Menn hafa reynt þetta þetta hingað til. Ég heyrði áðan hv. þm. Tómas Inga Olrich segja að við gætum hafið hvalveiðar einhvern tíma í framtíðinni og ættum að fara í það mál í áföngum. Væntanlega yrði einn áfanginn á þá leið að kynna málflutning okkar erlendis. Menn hafa gert það að einhverju leyti. Það má vel vera að sumum þyki það ekki hafa verið gert nægjanlega. Þó er mér kunnugt um að Jóhann Sigurjónsson, sem starfaði þá hjá utanrrn., og Arnór Halldórsson, sem starfar hjá sjútvrn., fóru til nokkurra erlendra ríkja og kynntu málið þar. Mér skilst að ráðherrar okkar hafi einnig gert það í einhverjum mæli en slíkt hefur ekki borið sérstakan árangur, enda tel ég það nokkurn veginn sambærilegt við, sem ég gat um áðan í andsvari, að við hefðum farið til Breta á sínum tíma, þegar við færðum landhelgi okkar út í 200 mílur og undirbúið málið með því að segja við þá: Er þetta nú ekki allt í lagi, strákar? Við ætlum að færa landhelgi okkar út í 200 mílur og er það ekki bara gott? Að sjálfsögðu hefðum við fengið mjög mikil mótmæli við því. Að mínu mati er því eðlilegt að fara út í hvalveiðar. Ég hef engar athugasemdir við að undirbúa málið. Það má vel vera að það skili einhverju en ég hef vissar efasemdir um það.

Menn hafa talað um að hugsanlega fengjum við mikið högg á mörkuðum. Ég efast um að svo verði. Það er hugsanlegt að höggið verði eitthvað. Þó er fátt sem bendir til þess. Hér hefur verið vitnað til reynslu Norðmanna og Færeyinga sem ekki hafa lent í stórfelldum áföllum vegna þessa. Ég óttast hins vegar afleiðingarnar ef við förum ekki í þessar veiðar og þá vísa ég í það sem fyrr sagði, að menn geti gengið á lagið og agnúast út í okkur og fleiri þjóðir fyrir að veiða fisk.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að eins og ég skildi hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, talsmann minni hlutans, gæti hann vel séð fyrir sér að Íslendingar hæfu hvalveiðar eftir 2--3 ár og þær veiðar ætti að undirbúa. Það er því kannski ekki svo mikið sem ber á milli tillögu meiri hlutans og skoðana hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Eins og nál. minni hlutans lítur út er hins vegar ekki hægt að lesa þetta úr því. Í nál. þeirra segir að vilji sé til að hefja hvalveiðar en svo er það rakkað skipulega niður í afgangi nál. og sagt að óábyrgt sé haldið á málum. Ég vísa því algerlega á bug. Ég tel að málið sé komin á mjög farsælan veg og mun því styðja það til enda.