Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 16:12:02 (4538)

1999-03-09 16:12:02# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[16:12]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að við séum með mun sterkari rök en fulltrúi fylkingarinnar í þessu máli. Fylkingin segir: Við skulum hefja hvalveiðar. Síðan tala menn gegn því í öllum málflutningnum. Að vísu vill hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefja hvalveiðar eftir tvö eða þrjú ár ef ég hef skilið hann rétt. Ég spyr því: Er það gassagangur? Við viljum hefja hvalveiðar á næsta ári, árið 2000, eftir eitt ár. Það á að undirbúa málið til þess tíma og flýta því eins og hægt er samkvæmt tillögunni. Ég spyr: Hver er munurinn á því að byrja eftir eitt ár eða byrja eftir tvö ár? Er það allur munurinn á afstöðu okkar?

Hv. þm. segir ekkert nýtt að hvalurinn borði mjög mikið af fiski við strendurnar og það er rétt. Við erum einmitt að benda á hve ómögulegt er að nýta einungis fiskstofnana en ekki hvalinn. Það er óeðlilegt að haga málum svo. Það á ekki að taka úr lífkeðjunni einn hluta. Það á líka að nýta hval. Ef við gerum það ekki tel ég að við gætum lent í vandræðum síðar með að nýta þorskstofna okkar.