Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:20:11 (4542)

1999-03-09 17:20:11# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:20]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um það hversu tíðrætt mér varð um umsagnaraðila. Ég var fyrst og fremst að tala máli þeirra sem hafa áhyggjur af tillögunni sem hér liggur fyrir, tillögu meiri hluta nefndarinnar. Ég lít svo á að tillaga meiri hluta nefndarinnar sé í samræmi við þá umsagnaraðila sem hv. þm. taldi upp hér áðan, þannig að þeir hafi átt málsvara hér í umræðunni.

Spurt var hvort mér fyndist sérkennilegt að SH hafi aðra skoðun en eigendur fyrirtækisins. Ég sagði áðan að þeir sem stæðu að sölu á afurðum okkar þekktu líklega gerst þá markaði sem þeir vinna á, vita hvað þeir þola og þekkja e.t.v. líka þá hagsmuni sem í húfi eru. Það kann að skýra það misræmi sem þarna er á skoðunum manna. Ég þori hins vegar ekki að geta mér til um hin dýpri rök þess að eigendur fyrirtækis og forsvarsmenn eru ekki samstíga í umsögnum sínum.

Hitt er ljóst að ég hygg að um ýmis fyrirtæki og samtök á Íslandi eigi við það sama og um einstaklingana, þ.e. menn eru tilbúnir til að lýsa yfir stuðningi við hvalveiðar. Ég veit hins vegar ekki hver svörin yrðu ef menn þyrftu að fórna miklu fyrir það. Ég get ekki gert mér það í hugarlund. Ég hygg hins vegar að þeir sem vara við sjái fyrir sér að veiðarnar gætu orðið til að skaða hagsmuni Íslendinga.