Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:22:14 (4543)

1999-03-09 17:22:14# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:22]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur auðvitað athygli manns þegar maður verður þess áskynja að aðeins eitt fyrirtæki, þó stórt sé í útflutningi, leggst gegn því að við hefjum hvalveiðar. Við heyrum ekki mótmæli frá Íslenskum sjávarafurðum eða SÍF. Við vitum það að í mjög vaxandi mæli eru ýmis fiskvinnslufyrirtæki sjálf að eflast og styrkjast í markaðssókn erlendis, selja undir sínum eigin merkjum. Það er hin mikla breyting sem orðið hefur og er okkur auðvitað mikill stuðningur í þeirri baráttu og kynningarstarfi sem fara þarf fram.

Auðvitað er mér ljóst að þetta geti orðið okkur erfitt. Ég segi það hins vegar hér og nú og hef alla tíð haldið því fram að við verðum að hefja hvalveiðar. Við gerum það auðvitað eftir þeim tillögum okkar færustu vísindamanna, fiskifræðinga, um það hvernig sækja megi í þennan stofn. Það er ekkert öðruvísi en með aðra stofna sem í hafinu eru.