Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 17:59:13 (4550)

1999-03-09 17:59:13# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[17:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er kannski nærtækt að byrja á því sem var tilefni til orðaskipta áðan og frammíkalla af minni hálfu, þ.e. spurningunni um þá sérstöðu sem hvalir eða sjávarspendýr hafa samkvæmt þjóðarréttinum og alþjóðaréttinum. Ég held að það sé einfaldast að hafa slíka hluti á hreinu þannig að enginn vafi leiki á því um hvað menn eru að ræða í þessum efnum.

Það vill svo til m.a. að í sjútvn. gerði ég athugasemdir við texta sem þar var kominn á blað um breytingar á tillögugreininni sem hér er til umræðu og benti meiri hlutanum á að í uppkasti að tillögunni, eins og það leit þá út, var staðreyndavilla því að þar var einmitt verið að tala um þennan óskoraða fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar til að nýta auðlindir efnahagslögsögunnar eins og að hvalir féllu þar undir á sambærilegan hátt og t.d. staðbundnir fiskstofnar. Svo er ekki. Ég hélt satt best að segja að flestir sem hættu sér út í umræður um þessi mál hefðu þessar staðreyndir á valdi sínu því að í ákvæðum alþjóðahafréttarsáttmálans, UNCLOS, ég man ekki lengur hvort það er í 87. gr. --- einhvern tíma kunni ég talsvert af þessum greinum utan að og innihald þeirra og var nokkuð vanur að vitna í þær, a.m.k. þær er lutu að úthafsveiðum og réttindum þjóða á alþjóðlegum hafsvæðum --- en í einhverri tiltekinni grein alþjóðahafréttarsamningsins undirgangast aðildarríki þess samnings það að eiga alþjóðlegt samráð innan viðurkenndrar alþjóðastofnunar um nýtingu sjávarspendýranna sem þar eru skilgreind í raun og veru sem flökkustofn, enda eru hvalirnir það að sjálfsögðu. Ég hef gert ráðstafanir til þess að fá eintak af hafréttarsáttmálanum hingað í ræðustólinn þannig að ég geti flett upp á þessu fyrir hv. þm. Stefán Guðmundsson. Við förum yfir þetta í sameiningu og bróðerni. Þar með verður það út úr heiminum og við vitum báðir hvað er um að tala.

[18:00]

Það er ekki svo, hv. þm., ef það átti að vera merkingin í orðaskiptum okkar að Vinstri hreyfingin --- grænt framboð, sé hallt undir að afhenda útlendingum réttindi til að forvalta auðlindir Íslands. Ætli það séu ekki einhverjir aðrir sem ættu að hugsa sinn gang í þeim efnum, eða hvað? Hvaða flokkur er núna farinn að gera opinberlega gælur við að ganga í Evrópusambandið? Er það ekki flokkur hv. þm.? Ætli það sé ekki frekar varhugavert í sambandi við að afhenda útlendingum forræði okkar mála en hitt að kunna alþjóðahafréttarsáttmálann og vitna rétt í hann. Það skal vera algerlega á hreinu, að a.m.k. sá sem hér stendur hefur ekki hugsað sér það hlutskipti sitt í pólitík á Íslandi að afsala útlendingum einhverju af þeim réttindum sem við náðum t.d. með útfærslu landhelginnar og ég hugsa mér að heiðra m.a. minningu Lúðvíks Jósefssonar með öðrum hætti en þeim. Það má hv. þm. Stefán Guðmundsson alveg vita.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að það eru nokkur tíðindi ef tillaga um hvalveiðar fær loksins afgreiðslu á þinginu. Hér er komið hið merka rit sem á ensku ber heitið United Nations Convention on the Law of the Sea, skammstafað UNCLOS og við köllum hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Þetta er mikið grundvallarplagg sem æskilegt er að sem allra flestir séu vel lesnir í og fjallað er um þetta í allmörgum köflum. Rétt er að skjóta því inn í í leiðinni til frekari fræðslu fyrir hv. þm. að svonefndur úthafsveiðisamningur er að stofni til viðauki við hafréttarsamninginn. Þetta er því grundvallarplaggið sem þjóðir heimsins hafa komið sér saman um að byggja á, ekki bara hvað varðar réttindi og meðferð mála innan sérefnahagslögsögunnar sem á grundvelli þessa plaggs og þessa alþjóðasamnings náði alþjóðaviðurkenningu og varð rétturinn í heiminum heldur er úthafsveiðisamningurinn í raun líka byggður á þessum stofni. Þar með voru menn að gera tilraun til að loka sjálfum heimshöfunum með því að bæta þeim inn í. Ég hygg að þetta sé að finna í 65. gr. Við skulum fara yfir þetta. Ég veit að forseti hefur mikla þolinmæði. Hér stendur í 65. gr.:

,,Sjávarspendýr`` og hefst nú lesturinn, með góðfúslegu leyfi hæstv. forseta:

,,Ekkert í þessum hluta skerðir rétt strandríkis eða vald alþjóðastofnunar, eftir atvikum, til að banna, takmarka eða setja reglur um hagnýtingu sjávarspendýra með strangari hætti en kveðið er á um í þessum hluta. Ríki skulu starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skulu, hvað hvali snertir, einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.``

Þetta er gersamlega kýrskýrt eins og ónefndur Íslendingur mundi kannski orða það og þetta er sú skuldbinding sem ég hélt satt best að segja að menn vissu að málið snýst um og hefur að verulegu leyti snúist um hvað alla umræðu um hina þjóðréttarlegu stöðu málsins snertir. Þetta er t.d. hin áleitna spurning sem allt byggist á þegar kemur að því að ræða hvort við verðum að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið til að fullnægja þessu ákvæði eða hvort NAMMCO, sem ég man nú ekki lengur hvað heitir á íslensku, líklega Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið, er fullnægjandi alþjóðastofnun til að fullnægja þeim skilyrðum sem þarna eru sett. Það er engin deila um það að til þess að við Íslendingar getum hafið hvalveiðar löglega verðum við að fullnægja þeim ákvæðum nema við viljum fara að gera það sem við ekki viljum, að brjóta ákvæði alþjóðahafréttarsáttmálans. Þá er það út úr heiminum.

Þá ætla ég næst, herra forseti, að lýsa því yfir af minni hálfu og er ekki nein stór yfirlýsing þó sagt sé, sem ég held að sé nokkuð ljóst, að óneitanlega eru nokkur tíðindi að tillaga af þessu tagi sem tengist spurningunni um hvalveiðar, fái afgreiðslu á Alþingi. Tillögur um hvalveiðar hafa að vísu verið hér á sveimi undanfarin ár, það liggur við að segja megi að þær hafi flækst fyrir hunda og katta fótum, verið að þvælast í reiðileysi ár eftir ár, en þær hafa aldrei fengið neina afgreiðslu.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að vandræðagangurinn í þessum málum hefur á undanförnum missirum og árum orðið svo yfirgengilegur að mér er hrein raun að því. Það er eiginlega orðið þannig að ég hef beðist undan því að ræða þau ósköp hvernig þetta hefur tiltekist og gengið fyrir sig hjá okkur. Margir þurfa að líta í eigin barm, vissulega Alþingi sjálft, því að hér hafa menn verið að vandræðast með tillögur ár eftir ár sem hafa gjarnan verið lagðar fram á vordægrum, mátulega nálægt því að þingið færi heim, þannig að það væri öruggt að þær fengju ekki afgreiðslu. Ekki síður þurfa stjórnvöld, framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnir landsins og hæstv. sjútvrh. og þá einkum og sér í lagi sá síðasti sem gegnt hefur embættinu í átta ár, að líta rækilega í eigin barm og spyrja sig, hver frammistaða þeirra hefur verið í þessum efnum. Sama mætti auðvitað segja um hæstv. núv. forsrh. og hæstv. utanrrh. sem hafa átt hlut að máli, átt menn í stjórnskipuðum nefndum á þessu sviði.

Auðvitað hefur verið til skammar hvernig við Íslendingar, stjórnkerfið hér, Alþingi, ríkisstjórnir og ráðuneyti, hafa í þessu viðkvæma og vandasama máli látið hlutina meira og minna flatreka. Þetta hefur verið skollaleikur, svo að maður segi ekki beinlínis fíflagangur í máli sem er í raun og veru afdrifaríkt, vandasamt og varðar grundvallaratriði sem þetta mál gerir vissulega, spurninguna um fullveldisrétt okkar með þeim takmörkunum þó sem í hlut eiga í þessu tilviki og ég hef lýst til að nýta auðlindir okkar og veiðanlega stofna í lögsögu okkar. Þetta varðar líka mjög viðkvæm og vandasöm hagsmunaatriði sem tengjast áhrifum þess að fara út í hvalveiðar á aðra þætti í efnahagslífi okkar og atvinnulífi og nægir þar að vísa til þeirrar umræðu sem hefur þegar farið fram í þeim efnum.

Ég hef stundum, herra forseti, líkt þessu við heita kartöflu sem enginn hefur viljað halda á. Það hefur enginn viljað halda á þessari heitu kartöflu, hvort ætti að hefja hvalveiðar og þá hvernig eða hvenær og menn hafa kastað henni á milli sín. Ráðherrar hafa hent henni í þingið og þingið hefur hent henni í ráðherrana og þannig hefur þetta gengið til. Kannski er að verða einhver breyting á, en ég segi þó kannski, því að ég hef verulegar efasemdir um það og mun koma að því síðar, að sú aðferð eða sú lending af hálfu þingsins sem hér er lögð til sé sú rétta.

Herra forseti. Auðvitað mætti fara mörgum orðum um þennan bakgrunn málsins en ég ætla ekki að gera það, ég ætla að hlífa mönnum við þeim ósköpum og það liggur svo sem meira og minna allt fyrir. Ég ætla næst að taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning að ég er nýtingarsinni og ég tel að við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að byggja á þeirri grundvallarreglu að við nýtum þá stofna og þær tegundir sem geta orðið okkur til búdrýginda og styrkt efnahagslíf okkar og atvinnulíf o.s.frv. Nýtingin er þó í sjálfu sér ekki grundvallaratriði heldur sá arður sem á að mega hafa af þeirri nýtingu. Í sjálfu sér finnst mér ekki markmið að veiða dýr heldur á að gera það í því skyni að af þeim séu afnot.

Ég hef verið stuðningsmaður þess að við Íslendingar tryggðum réttindi okkar hvað varðar veiðar á sjávarspendýrum eins og öðrum dýrum og get meira að segja upplýst það, herra forseti, að ég er sjálfsagt einn af tiltölulega fáum hv. alþingismönnum sem hef beinlínis haft atvinnu tengda hvalveiðum fyrr á öldinni eins og einhver mundi kannski segja þegar ég vann við að flytja hrefnur til skurðar á milli hafna á norðausturhorni landsins. (Gripið fram í: Dauðar eða lifandi?) Þær voru dauðar, hv. þm., ég hefði ekki viljað hafa þær á pallinum bráðlifandi. En það er önnur saga.

Ég held að nærtækast sé að líta þá á stöðu málsins eins og hún er núna og spyrja sig að því: Hvar stöndum við nú og hvað er rétt að gera eins og málin liggja fyrir? Ég held að staðan sé ósköp svipuð og hún hefur verið allmörg undanfarin ár, því miður, verð ég að segja. Því miður er staðan enn ósköp svipuð því sem hún hefur verið um allnokkurt skeið og mestallan þann tíma sem þessi endalausi vandræðagangur hefur staðið með þetta mál.

Segja má að fljótlega í kjölfar útgöngu okkar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu hafi málin komist nokkurn veginn í þann farveg sem þau eru í núna að því kannski einu slepptu að NAMMCO, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið, hefur vissulega eitthvað styrkst sem stofnun og hefur kannski eitthvað sterkari þjóðréttarlega stöðu en það gerði áður en þó eru enn deilur uppi um það hvaða sess það skipi ef litið er til ákvæða þjóðréttarins.

Að öðru leyti, þ.e. hvað varðar hina pólitísku stöðu og vígstöðu í málinu og málstað Íslands og kynningu á málstað okkar út á við og pólitíska undirbyggingu hvað það varðar að hefja hvalveiðar, er staðan í besta falli svipuð og hún hefur verið undanfarin ár ef ekki verri.

Það sem hefur líka breyst og er rétt að hafa í huga og ástæðulaust að læðupokast neitt í kringum er auðvitað það að hagsmunir Íslands eru að verða blandaðri í þessu máli en þeir áður voru. Það er augljóst mál. Þeir miklu hagsmunir sem eru fólgnir í hvalaskoðun eru vissulega þarna á hina hliðina. Menn geta rætt um hvort þetta geti ekki farið saman og vonandi trúað því en það væri barnaskapur og óraunsæi að ræða þetta ekki út frá því að þar hefur verið að vaxa upp atvinnugrein sem byggir á nýtingu þessara stofna með öðrum hætti en þeim að veiða þá og við erum að fara yfir það. Að sjálfsögðu eru þetta spurningar um hagsmuni Íslands í stóru samhengi og við eigum að ræða bæði plúsa og mínusa í því dæmi.

Þessari breyttu stöðu fylgja líka breyttar áherslur ýmissa innan lands, það er ljóst. Ég hygg t.d. að aðilar í ferðaþjónustu séu orðnir enn neikvæðari í garð þess að hefja hvalveiðar en þeir voru fyrir nokkrum árum. Voru þeir þó auðvitað alltaf mjög gagnrýnir á það af skiljanlegum ástæðum. Menn óttuðust mjög að við gætum orðið fyrir ákveðnum skakkaföllum vegna andófsaðgerða og hernaðaraðgerða gegn okkur á erlendri grund.

Nú sýnist mér að ferðaþjónustugeirinn með hvalaskoðunarmenn í broddi fylkingar séu tvímælalaust að leggjast á þessa sveif. Það má alveg velta því fyrir sér hversu langan tíma menn hafa til stefnu, ef menn ætla að byggja á nýtingu þessara stofna á annað borð, til að drífa sig í gang áður en almenningsálitið á Íslandi snýst þannig að það verði jafnvel bara orðinn meiri hluti fyrir því að fara ekkert út í slíkar veiðar. Svo er ekki enn, held ég að sé óhætt að fullyrða, og til marks um það eru sjálfsagt vísbendingar úr skoðanakönnunum o.s.frv. En mér sýnist alveg augljóst mál að það er smátt og smátt að verða ákveðin viðhorfsbreyting í þessum efnum í landinu. Ég hygg að eftir því sem fleiri ár líða frá því að þessi nýting var í gangi og menn litu á veiðar sem sjálfsagðan hlut eins og menn gerðu á Íslandi breytist andrúmsloftið. Auðvitað má nota það sem röksemdir í báðar áttir fyrir því að þessari ákvörðun þurfi að hraða eigi menn að gera þetta á annað borð. En sjálfsagt geta líka einhverjir sagt sem svo að það verði þá vaxandi tímaskekkja ár frá ári að fara út í þessar veiðar.

[18:15]

Ég held, herra forseti, að ekki sé hægt annað en horfast í augu við það að við Íslendingar höfum alls ekki unnið heimavinnuna okkar í þessu máli, alls ekki. Í raun er það þannig að ef við lítum á meðferð þessara mála, þá hefur tímanum frá því að síðasta stjórnskipaða nefndin um hvalamál skilaði af sér á öndverðu ári 1997, ef minni mitt svíkur ekki, verið eytt algerlega til ónýtis og ég þykist reyndar vita af hverju það er. Ég tel það ekki verri getsakir en hvað annað að segja það hér að það er vegna þess að bullandi ágreiningur er um það í ríkisstjórn landsins hvort fara eigi í þessar veiðar eða ekki. Ég fullyrði að í stjórnkerfinu og í nánasta nágrenni við æðstu valdastofnanir framkvæmdarvaldsins, forsrn. og utanrrn., liggur þetta þannig. Þar af leiðandi hefur enginn kraftur verið settur í það á einn eða neinn hátt að vinna þá vinnu og framkvæma þær tillögur sem lagt var til af þeirri stjórnskipuðu nefnd í febrúar eða mars 1997, og voru skynsamlegar. Ég tel að við værum í betri stöðu með málin ef menn hefðu fylgt þeim tillögum eftir og unnið þá heimavinnu sem menn settu þar framkvæmdarvaldinu fyrir sem fólst bæði í ákveðinni úttekt á lagalegum hliðum og í ákveðnum aðgerðum til að kynna málstað okkar og undirbyggja það að vígstaða Íslands yrði sem sterkust þegar veiðarnar hæfust, t.d. með pólitískum aðgerðum. Sjálfsagt geta ráðherrar vitnað til þess að þeir hafi á einhverjum fundum og í einhverjum opinberum heimsóknum eða ferðalögum erlendis nefnt þetta við mann og mann. En ég held að við vitum öll hvernig það er. Það hafa engar skipulegar áætlanir verið í gangi, engri framkvæmdaáætlun hefur verið fylgt eftir í þeim efnum og það er auðvitað alveg hraklegt að málin skuli standa þannig. Og það er ólíku saman að jafna hvernig Norðmenn undirbjuggu veiðar sínar þegar þeir ákváðu þær með þó nokkrum aðdraganda, tímasettu upphaf veiðanna, tilkynntu það og notuðu síðan tímann fram að því til þess að undirbyggja málstað sinn markvisst, m.a. og ekki síst með samskiptum og samtölum við ráðamenn í þessum efnum og æðstu menn þjóða austan hafs og vestan. Það vita til að mynda allir að þáv. forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland beitti sér persónulega og fór í ferðir vestur um haf til að styrkja stöðu Norðmanna og fyrirbyggja að þeir yrðu beittir refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjastjórnar og átti um það löng og ströng samtöl, að sagt er, m.a. við Al Gore, varaforseta Bandaríkjanna. Þetta vita Íslendingar því að Norðmenn sáu til þess að við fengjum að fylgjast með og vissum af því hvernig þeir unnu að þeim hlutum, og t.d. sá sem hér talar sat fundi með Gro Harlem Brundtland þegar hún var á leið vestur um haf í einn slíkan leiðangur og upplýsti okkur um hvað væri þar á dagskrá.

Þarna hafa menn alveg brugðist. Menn hafa ekki unnið heimavinnuna en þarna er mikla vinnu að vinna. Ég held jafnvel að það megi leiða að því líkum að okkur hafi farið aftur í þessum efnum en ekki fram. Ég vitna t.d. til þeirrar hreyfingar sem komst á þessi mál snemma á þessum áratug þegar það var talsvert á dagskrá í vestnorrænu samstarfi og þegar við tókum okkur saman nokkrir þingmenn frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Noregi og bjuggum til starfshóp til að kynna málstað veiðisamfélaganna hér við norðvestanvert Atlantshaf og fórum m.a. í sérstaka hringferð um Norðurlönd til þess að tala við starfsbræður okkar á þjóðþingum hinna Norðurlandanna. Ég fór í þá ferð. Hún var ákaflega lærdómsrík og við áttum fundi með einstökum nefndum í danska, sænska og finnska þjóðþinginu til að reyna að fá þar skilning á málstað okkar. Og halda menn nú ekki að þar sé verk að vinna, t.d. gagnvart þjóðþingum og stjórnvöldum í Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og víðar, þegar það kemur á daginn að m.a.s. á hinum Norðurlöndunum skortir verulega á að skilningur sé á stöðu okkar í þessum efnum?

Það bar strax á því t.d. í danska þinginu að þegar farið var að ræða málin, fyrst reyndar við atvinnumálanefndina eða þá nefnd sem fór með sjávarútvegsmál. Þar höfðu menn allgóðan skilning á því að við byggðum efnahagslíf okkar á þessari nýtingu o.s.frv. en þegar kom yfir í umhverfisnefnd danska þingsins, þá byrjuðu strax að heyrast úrtölu- og efasemdaraddir og jafnvel var því haldið fram að þetta væri hið mesta barbarí og villimennska að nýta sjávarspendýr. Síðan versnaði ástandið jafnt og þétt eftir því sem austar dró. Í sænska þinginu bar mun meira á andstöðu við sjónarmið okkar í þessum efnum. Til dæmis man ég eftir því að einmitt umhvn. sænska þingsins, sem ég held reyndar að fari með þessi auðlindanýtingarmál líka, var í raun verulega þversum gagnvart sjónarmiðum okkar en þó tók steininn úr þegar kom til Finnlands. Þá var ástandið þannig að þingmenn á finnska þinginu sögðust bara aldrei hafa heyrt þau sjónarmið sem við vorum að reyna að kynna þarna. Og á hverju byggðu þeir allar upplýsingar og allar skoðanir sínar eða afstöðu í málunum? Á áróðri sem að þeim var réttur frá öfgahópum og ýmsum umhverfisverndarhópum sem mötuðu finnska þingið og þar höfðu menn alls ekki heyrt þau sjónarmið t.d. sem við vorum að reyna að koma þarna að og það var lærdómsríkt að upplifa þetta. Þeim fannst það alveg sjálfsagður hlutur að Alþjóðahvalveiðiráðið bannaði okkur að veiða hvali ef svo bæri undir og höfðu satt best að segja afar lítinn skilning á því að þetta væri eitthvað sem okkur væri treystandi fyrir eða við ættum rétt á að ráða a.m.k. að einhverju leyti sjálf, hvernig við nýttum lífríkið sem við byggjum í og lifðum með. Það var auðvitað dálítið lærdómsríkt að heyra þá halda slíku fram, m.a. við hvalveiðimann, Usaraq að nafni frá Thule á Norður-Grænlandi.

Það varð okkur að vísu til nokkurrar hjálpar að einn í hópnum þekkti nokkuð til ástandsins í finnsku skógunum og vissi að þar er allmikill stofn af elg og Finnar þurfa að veiða um 18--30 þúsund dýr á ári til að halda stofninum niðri með mjög svipuðum hætti og við höfum stjórnað hreindýrastofninum hjá okkur með veiðum um árabil. Það fannst Finnum hins vegar sjálfsagt að þeir mættu gera. Og við tókum þá það dæmi, hvort þeir yrðu glaðir ef eitthvert batterí úti í heimi bannaði þeim að stjórna nýtingu elgstofnsins með svipuðum rökum og verið væri að banna okkar veiðar á eða nýtingu sjávarspendýra.

Þetta var kannski smáútúrdúr og þó, herra forseti. Ég held að það sé ágætt fyrir menn að hugleiða það hvernig staðan er í þessum efnum og hvað menn hafa gert eða öllu heldur ekki gert, því miður, til þess að reyna að nota þó þau sambönd og þá möguleika sem við Íslendingar höfum í gegnum okkar alþjóðasamstarf, í gegnum þátttöku í Norðurlandaráði, í Evrópuráðinu og á alþjóðavettvangi til að kynna og undirbyggja málstað okkar. Ég held að sú kynning og sú vinna verði fyrst og fremst að beinast að æðstu yfirvöldum þessara landa. Ég held að það sé borin von að litla Ísland geti með aflsmunum sínum og peningum haft nokkur minnstu áhrif á almenningsálitið í heiminum í þessum efnum. Það ráðum við einfaldlega ekkert við. Það sem við hins vegar getum er væntanlega að reyna að afla okkur bandamanna og pólitísks stuðnings og gera það í gegnum þau sambönd sem við höfum. Það má eftir atvikum reyna eitthvað að eiga við næsta lag sem væru þá viðskiptaaðilarnir og hagsmunaaðilar en öllu lengra held ég að þýði ekki að reyna að rekja þetta mál. Það er nánast út í loftið held ég að við færum að standa fyrir einhverri almennri kynningarherferð sem ætti að miða að því að breyta skoðunum almennings í milljónaþjóðfélögum sem eru mótaðar af miklu, miklu sterkari öflum en svo að við fáum þar við ráðið þar sem er hin alþjóðlega fjölmiðlun og allt það.

Herra forseti. Að lokum vil ég víkja aðeins að þessari tillögu. Hún er að mínu mati mjög gölluð. Gölluð var hún fyrir en hún hefur þó versnað til mikilla muna vegna þess að það sem var kostur hennar áður er horfið út, þ.e. tímasetning upphafs væntanlegra veiða er horfið út. Það er horfið út, hv. þm., sem hér hristir höfuðið úti í sal, miðað við þann texta brtt. sem hér er flutt af hv. meiri hluta sjútvn. Þar er gamalkunnugt orðalag að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta og sem fyrst o.s.frv. í staðinn fyrir að áður stóð þarna ártal, árið 1999. Að þessu leyti hefur orðið afturför að mínu mati hvað tillöguna snertir vegna þess að ég held að ef Alþingi ætlar á annað borð að leiðbeina framkvæmdarvaldinu í þessum efnum, sem er út af fyrir sig umdeilanlegt hvort ástæða sé til vegna þess að ég hygg að því verði ekki á móti mælt að í raun hafi sjútvrh. það á sínu valdi að heimila hvalveiðar. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að sjútvrh. þurfi ekkert sérstakt samþykki Alþingis til þess. Ákvörðun Alþingis 1983 var eingöngu um að mótmæla ekki hinu tímabundna hvalveiðistoppi sem Alþjóðahvalveiðiráðið var þá að setja á. Alþingi var ekki að segja að Íslendingar ættu ekki að veiða hvali, það var ekki að segja það. Þvert á móti eru í gildi lög í þessum efnum sem vísa alveg afdráttarlaust veginn í hina áttina. Sjútvrh. hefur það vald að stjórna nýtingu nytjastofna af þessu tagi og Alþingi hefur alls ekki gripið frammi fyrir hendur honum og gerði það ekki hvað það varðar með samþykkt sinni 2. febrúar 1983. En segjum svo, og það geta verið rök, að staðan sé að því leyti sterkari ef Alþingi jafnframt, skulum við segja, lætur vilja sinn í ljósi, þá liggi fyrir bæði óskoraður vilji löggjafans og síðan framkvæmdarvaldsins, eftir atvikum, í nýlegum samþykktum og gott og vel. En þá held ég líka að ef Alþingi er að blanda sér í málið á annað borð eigi það að tala skýrt en ekki búa til nýtt skálkaskjól fyrir menn til þess að þvæla málinu og velta því á undan sér í vandræðagangi ár eftir ár. Það er megingagnrýni mín á þessa tillögu eða þessa brtt. eins og hún er nú lögð hér upp að ég óttast mjög að hún verði fyrst og fremst enn einn slíkur biðleikur í málinu. Og þá er það vitlaust og út í loftið að vera að kalla yfir okkur það sem þrátt fyrir allt getur verið þessu samfara að samþykkja tillöguna ef það hefur ekki annað upp á sig en það að þeir sem með framkvæmdarvaldið fara halda áfram á komandi árum að þvæla málinu áfram eins og gert hefur verið að undanförnu.

Ég held líka, herra forseti, að tillagan sé gölluð ekki bara hvað það varðar að hún er ekki skýr hvað tímasetningar eða upphaf snertir, heldur líka vegna þess að hún kveður ekki skýrt á um það með hvaða hætti hvalveiðar skulu hafnar. Ég held að það veiki stöðuna og dragi úr líkum á því að einhverjar veiðar komist í gang að hafa hana þannig úr garði gerða. Á mannamáli sagt, herra forseti, liggur málið þannig í mínum huga að það eina sem raunhæft er og er í valdi Íslendinga sjálfra, nánast án þess að það verði hrakið, að gera í þessum efnum og við höfum forræði yfir að gera væntanlega með þeim fyrirvara þó að menn taki þá samráðið innan NAMMCO gilt og það teljist fullnægja 65. gr. hafréttarsáttmálans, það er að hefja takmarkaðar hvalveiðar fyrir innanlandsmarkað, einhverjar takmarkaðar veiðar á hrefnu, sem er í rauninni það eina raunhæfa. Eða halda menn að það sé tilviljun að Norðmenn hafa ekki leyft útflutning á hvalkjöti? Halda menn að það sé tilviljun? Hafa menn ekkert velt því fyrir sér hvort ástæða gæti verið fyrir Íslendinga að skoða að einhverju leyti og nánar það fordæmi sem þar liggur fyrir? Ég held að það sé ekki tilviljun og ég held að því miður mundum við Íslendingar reka okkur harkalega á ef við létum á það reyna, að það er ekki tilviljun að Norðmenn hafa farið þannig í þetta af sinni hálfu.

Út af fyrir sig geta menn haft það sjónarmið að það sé ekki okkar hausverkur og að Alþingi eða þess vegna framkvæmdarvaldið, ráðherrar, eigi ekki að vera að hafa áhyggjur af því ef einhver vilji reyna að nýta þessa stofna og reyna að koma afurðunum í verð, þá sé það þeirra mál. En ég held bara að málið liggi ekki þannig að hægt sé að afgreiða það svo einfalt, m.a. vegna þess að við getum ekki horft fram hjá þeim miklu takmörkunum sem eru orðnar á viðskiptum með þær vörur í heiminum. Við getum ekki horft fram hjá þeim. Eða muna menn ekki eftir gámunum sem voru að læðupokast um heiminn og voru kyrrsettir og allt hvað var. Ég held að menn verði bara að horfast í augu við þessa stöðu alveg eins og hún er.

Ég hefði talið raunhæft, herra forseti, að ákveða tímasett upphaf á takmörkuðum hrefnuveiðum fyrir innanlandsmarkað, t.d. að þær skyldu hefjast á vordögum árið 2000. Ég hefði getað stutt slíka tillögu svo það sé algerlega á hreinu, af því að það tel ég vera raunsætt og mögulegt og framkvæmanlegt í ljósi allra aðstæðna eins og málin liggja fyrir. En þetta hér tel ég ekki skynsamlegt, og mér þykir það miður, herra forseti, að þurfa að lýsa þeirri afstöðu minni til tillögunnar. Ég er í raun sama sinnis, sömu skoðunar og met stöðuna algerlega sambærilega og ég gerði þegar ég tók þátt í að skila lokaáliti stjórnskipaðrar nefndar um hvalveiðar í upphafi árs 1997. Ég hef ekki áhuga á því, herra forseti, að láta fíflast meira með mig í þessu máli og er ekki sérstaklega áhugasamur um að fara að samþykkja einhverja tillögu sem ég óttast að geti reynst hálfgerð sýndarmennska, bakað okkur Íslendingum vandræði að óþörfu án þess þó að skila því sem til er ætlast, að ákveðin stefna verði tekin í þessum efnum og í henni felist að við undirstrikum rétt okkar til nýtingar á þessum stofnum sem við eigum auðvitað að gera. Eða fyndist mönnum það ekki hrapallegt ef Alþingi færi þannig að ráði sínu að það byggi til nýtt skálkaskjól og setti í gang nýjan farsa, nýjan leikþátt í þeirri tragekomedíu, eða hvað við eigum að kalla það, sem hér hefur verið í gangi undanfarin ár og er þá ekki gott til afspurnar því að í hlut eiga að sjálfsögðu mjög mikilsverð og vandasöm mál þar sem þessi mál eru.