Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:33:19 (4552)

1999-03-09 18:33:19# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði það skýrt í máli mínu áðan, og ég held að ég sé alveg þokkalega máli farinn, að hv. þm. þurfi ekki að reyna að taka mig upp í þessum efnum. Afstaða mín liggur fyrir. Ég hef lýst því hvað ég tel rétt að við Íslendingar gerum í þessum efnum, að við hefjum svo fljótt sem við verður komið, t.d. vorið 2000, takmarkaðar veiðar á hrefnu fyrir innanlandsmarkað. Það get ég stutt. Ég er tilbúinn að standa að tillöguflutningi í þá veru og lét það koma fram í sjútvn. Ég hef gert það ítrekað við umræður um þessi mál.

Tillagan er ekki skýr. Tillagan er full af matskenndum atriðum sem verða á valdi ríkisstjórnarinnar að leggja mat á, ef ég skil þetta rétt. Hver á annars að meta hvenær nægjanleg kynning á okkar málstað hefur farið fram meðal viðskiptaþjóða okkar? Hver metur hve langan tíma þurfi til þeirrar kynningar? Er það ekki framkvæmdarvaldið? Það er engin leiðsögn eða takmörkun af þeim toga hér. Ríkisstjórninni er ekki sett fyrir að gera eitthvað tiltekið á tilteknum tíma og bang, hefja svo veiðar. Það er ekki þannig. Ártalið 1999 er farið út. Ég held að hv. þm. verði bara að þora að horfast í augu við að hér er í raun verið að þynna málið út. Það er þannig. Í staðinn fyrir að skýra það og beina í ákveðinn farveg, að tímasetja það og ákveða hvers konar hvalveiðar hefjist, þá er málið þynnt út. Allir, af hvaða ástæðum það er, hv. þm., þeir sem orðnir eru stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar og ætla að fara að taka mig upp, eru að kasta steinum úr glerhúsi.