Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:39:01 (4555)

1999-03-09 18:39:01# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þess var óskað fyrr í dag að ég yrði við umræðurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og léti í ljós skoðun á þessu máli. Í stuttu máli get ég sagt það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ég tel tillöguna falla vel að þeirri stefnumörkun sem orðið hefur á vettvangi ríkisstjórnarinnar og Alþingi sé er að stíga skynsamlegt skref með því að samþykkja þá ályktun sem hér liggur fyrir.

Ég er einnig sammála því sem segir í fyrstu setningu þáltill., þ.e.:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því.``

Ég tel að þessi ályktun Alþingis sé nauðsynleg forsenda þess að ríkisstjórnin gangi síðan til þess sem síðar segir í þáltill. og taki fyrst og fremst tillit til þess að veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og undir eftirliti stjórnvalda. Einnig er ég sammála því sem segir í 2. mgr. þáltill.:

,,Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.``

Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi álykti með þessum hætti og sá vilji þingsins að skýrt komi fram að um óskoraðan fullveldisrétt Íslands sé að ræða við nýtingu hvalastofna og þessum rétti megi íslenska þjóðin alls ekki afsala sér.

Í þriðja lagi er í þáltill. þessi efnisgrein:

,,Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.``

Að sjálfsögðu hlýt ég og hef ekki heyrt annað en allir hv. ræðumenn sem hér hafa talað séu sammála þessum þætti tillögunnar einnig. Það þarf að undirbúa hvalveiðar, kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar og haga undirbúningi þannig að veiðar geti hafist sem fyrst.

Að öðru leyti er hér komið inn á kostnaðinn og annað slíkt, sjálfsagða hluti sem ekki þarf að eyða orðum að. Í stuttu máli er ég sammála þessari ályktun og tel að hún sé skynsamleg miðað við framvindu mála. Ég tel nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina og Alþingi að fá slíka afstöðu fram og nauðsynlegt sé að málið sé afgreitt á þessu þingi þannig að ljóst sé hver sé vilji Alþingis er við lok þessa kjörtímabils. Að mínu mati hefur dregist of lengi að taka af skarið um þetta og veita framkvæmdarvaldinu þær heimildir sem það fær með samþykkt þessarar ályktunar. Efnislega er ég eindreginn stuðningsmaður þess að þetta mál nái fram að ganga og tel mjög mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands að svo verði. Verði málið ekki afgreitt og þessi þáltill. eins og hún lítur út núna, þá væri hægt að túlka það m.a. á þann veg að við drægjum í efa óskoraðan fullveldisrétt Íslands til þess að nýta hvalastofna.

Á hinn bóginn vil ég láta koma fram og minna á þá staðreynd að ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að óskynsamlegt hafi verið að segja Ísland úr Alþjóðahvalveiðiráðinu á sínum tíma. Þegar það var kynnt í utanrmn. á milli jóla og nýárs árið 1991, var ég sá eini nefndarmannanna sem andmælti því og ég lét bóka að ég teldi að það óskynsamlega ráðstöfun að Ísland segði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég er enn sömu skoðunar að þessu leyti og hika ekki við að láta þá skoðun í ljós og tel að það sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga, til þess að undirbúningurinn sé sem bestur, að við hugum að inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið röng ákvörðun á sínum tíma og þess vegna m.a. hafi dregist að við gætum stigið það skref að hefja hvalveiðar að nýju. Ég tel að tilraunin með því að stofna NAMMCO hafi ekki tekist og NAMMCO sé ekki sá vettvangur sem dugi okkur til að tryggja þjóðréttarlega stöðu okkar þegar kemur að því að hefja hvalveiðar. Allan þann tíma sem ég hef verið á Alþingi hefur skoðun mín verið þessi. Hún hefur ekki breyst og í tímans rás hafa æ fleiri komist á þá skoðun að betra sé fyrir Ísland að vera í Alþjóðahvalveiðiráðinu til að búa sem best um hnútana svo við getum hafið hvalveiðar að nýju.

Ég var í forustu fyrir utanrmn. Alþingis þegar hún fór í heimsókn til Bandaríkjanna undir lok síðasta kjörtímabils. Allir nefndarmenn sem áttu tök á því að komast úr landi á þeim tíma fóru í þá ferð, tveggja daga ferð í höfuðborg Bandaríkjanna. Þar var rætt við bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Enginn sem tók þátt í þeirri ferð var þeirrar skoðunar að leiðin fyrir okkur til að búa sem best um hnútana ef við hæfum hvalveiðar að nýju væri að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið. Það lá alveg skýrt fyrir hjá öllum sérfræðingum, embættismönnum og stjórnmálamönnum sem við hittum og ræddum við að mikilsvert væri fyrir Íslendinga að hafa það í huga þegar þeir tækju ákvarðanir um að hefja hvalveiðar að nýju.

Þetta er skoðun mín, sem fram hefur komið í seinni hluta ræðu minnar, varðandi afstöðu Íslands gagnvart Alþjóðahvalveiðiráðinu. Fyrst ég er spurður get ég ekki annað en áréttað hana. Ég tel að það sé að koma betur í ljós að það hafi verið rangt að segja Ísland úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það gekk ekki eftir sem menn töldu að mundi gerast. Noregur sagði sig ekki úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, Japan gerði það ekki. Þetta voru meðal þeirra atriða sem menn nefndu þegar þessar tillögur voru kynntar um jólin 1991 og málin hafa ekki þróast á þann veg sem menn töldu að gerast mundi. Ég er ekki að segja að ég hafi séð það fyrir heldur hitt að ég tel að Íslendingar þurfi að hafa traustan þjóðréttarlegan grundvöll þegar þeir taka jafnafdrifaríkar ákvarðanir og þær að hefja hvalveiðar. Sjálfur hef ég tekið þátt í umræðum um þetta mál á alþjóðavettvangi, m.a. innan Evrópuráðsins. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að skýra málstað okkar Íslendinga í þessu máli en það þarf að gera markvisst og að því eru lögð drög í þessari þáltill. sem ég styð heils hugar.