Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:46:35 (4556)

1999-03-09 18:46:35# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:46]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. starfandi sjútvrh. fyrir svörin við fyrirspurnum sem ég bar fram í ræðu minni og öðru því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, sem var upplýsandi um afstöðu hans. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra frekar varðandi það sem fram kom.

Ég vildi fá frekari upplýsingar um fyrsta þátt fyrirspurnarinnar, þar sem vikið er að vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ekki var alveg ljóst hvort hæstv. ráðherra væri að vísa til þeirra tillagna frá stofnuninni sem fyrir liggja í skýrslu hennar frá síðasta ári. Í þeirri tillögu er rætt um að taka skuli 250 hrefnur og 100 langreyðar. Þannig eru tillögur Hafrannsóknastofnunar og væntanlega höfð hliðsjón af þeim þegar talað er um hvalveiðar í tillögunni. Ég dreg mjög í efa að skynsamlegt sé að hlíta slíkri ráðgjöf um það eins og aðstæður eru.

Í öðru lagi, varðandi þriðja liðinn um kostnað við kynningu, spyr ég hvort hæstv. ráðherra hafi hugmynd um það hve miklu fjármagni sé skynsamlegt að verja í því sambandi. Nú einnig vaknar spurningin um markað, hvort hæstv. ráðherra hefur í huga að það verði teflt á erlendan markað ef hvalveiðar hæfust hér. Það er auðvitað ljóst, að ef fylgja ætti umræddri ráðgjöf um fjölda dýra sem taka ætti, þá eru menn ekki að tala um innanlandsmarkað heldur um stórfelldan útflutning.

Ég vil einnig spyrja um Alþjóðahvalveiðiráðið, þar sem hæstv. ráðherra lýsti skoðun sinni. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hefði tíðindi að segja af ríkisstjórninni, hvort ríkisstjórnin hafi skoðun á málinu en lýsi hér ekki aðeins persónulegri skoðun. Ég tel mikilsvert að það komi fram.