Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:51:13 (4558)

1999-03-09 18:51:13# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Einmitt þetta síðasta sem hér kom fram sýnir hve vanbúin stjórnvöld eru að taka á þessu máli, grundvallarþáttum málsins. Hæstv. ráðherra hefur þessa skoðun en segir jafnframt að engin samstaða sé um það í ríkisstjórninni. Hæstv. ráðherra segir okkur að hann treysti ekki NAMMCO, hafi ekki trú á því. Það hafa vissulega komið fram raddir sem segja NAMMCO gagnslaust sem samtök til þess að byggja á áframhaldandi hvalveiðar Íslendinga. Þannig er hér geysilega mikil brotalöm í málinu, ein af mörgum.

Hæstv. ráðherra segir að hann geti ekki nefnt hvers konar ráðgjöf eigi að hlíta, hve miklu fjármagni eigi að kosta til og leiðir jafnvel líkur að því að einhverjir fjármunir séu faldir í kerfinu eða í öðru samhengi, eins og með Microsoft. Ja, það yrðu nú tíðindi ef aðrir færu að borga fyrir okkur kynningar. (Menntmrh.: Það er ekki rétt eftir mér haft.) Nú, þá biðst ég velvirðingar. Ég tók þannig eftir því. Hvernig má búast við að við fáum fjármagn öðruvísi en það komi af opinberu fé eða frá þeim sem ætla sér að stunda hvalveiðar?

Síðan er það spurningin um markaðinn. Allt skiptir þetta geysilegu máli, líka út frá því hvert sækja á í sambandi við markað. Eru menn að tala um innanlandsmarkað einvörðungu? Telur ráðherra að aðstæður séu til að hefja útflutning á hvalkjöti? Öll kynning hlýtur að taka mið af því sem menn eru að hugsa í tengslum við þessi grundvallaratriði. Það er ekki bara spurning um vilja heldur einnig spurningin um möguleika á útflutningi á þessari vöru sem er á opinberum bannlistum erlendis. Ég hef ekki séð möguleika eða teikn um að einhvern markað sé að hafa eins og sakir standa.