Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 18:53:32 (4559)

1999-03-09 18:53:32# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[18:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þau orðaskipti sem urðu milli mín og þingmannsins meðan hann var í ræðustólnum þá var ég að segja að málstaður Íslands getur komist á framfæri í fjölmiðlum erlendis án þess að kostað sé til þess stórfé. Það þarf að kynna það og halda málstað okkar á lofti. Ég tel þetta ekki endilega spurningu um peninga heldur um hvernig menn koma skoðunum sínum á framfæri og eftir hvaða leiðum þeir fara.

Ég er sannfærður um að málstaður okkar Íslendinga í þessu máli er það góður, ef spilin eru lögð á borðið, að ég kvíði því ekki að rökum okkar verði alfarið hafnað og talin einskis virði. Ljóst er að ef við höfum umhverfið í huga þá þarf að vera jafnvægi í hafinu og það jafnvægi næst með því að stunda hvalveiðar m.a. Hv. þm. hlýtur að átta sig á því.

Varðandi sölu á afurðunum þá er það vandamál og það er alveg rétt. Hv. þm. ýtir, í andstöðu sinni við málið, auðvitað á þá aumu punkta sem eru á því, m.a. hve ótryggt er að hægt sé að selja þessar afurðir. Menn þurfa að sjálfsögðu að benda á markaðinn fyrir afurðirnar ef þeir ætla að hefja stórfelldar hvalveiðar. Það er eitt af því sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að velta fyrir okkur og ræða af hreinskilni. Við getum að sjálfsögðu ekki látið eins og það sé ekki viðfangsefni í þessu tilliti.

En ég tel að það mál eigi hins vegar ekki að eyðileggja það að Alþingi taki afstöðu og styðji þessa tillögu og hún nái fram að ganga þannig að umboð framkvæmdarvaldsins sé skýrt.