Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 20:50:10 (4564)

1999-03-09 20:50:10# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[20:50]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Hjörleifur Guttormsson, vitnaði réttilega í nál. meiri hluta sjútvn. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Tillagan var einnig send utanríkismálanefnd til umsagnar og gerir hún ekki athugasemdir við þingmálið eftir athugun á því.``

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að þáltill. um hvalamálið var ekki vísað til utanrmn. Hún var til úrvinnslu í hv. sjútvn. Þegar sjútvn. leitaði með bréfi eftir athugasemdum utanrmn. stóð ekki til að sú nefnd endurtæki þá yfirferð sem fram fór í sjútvn. Til þess stóðu engin efni enda vinnulag ekki þannig í þinginu að þegar ein nefnd vísar máli til annarrar, sé málið tekið fyrir þar á sama grundvelli og í þeirri nefnd sem hefur með málið að gera, að hún fari yfir málið í öllum atriðum. Þetta mál er flókið. Það snertir ýmsa hagsmuni. Sumir eru þannig að utanrmn. getur kallað fram upplýsingar um ákveðna þætti eins og hvort málið samrýmist alþjóðlegum samningum.

Að frumkvæði formannsins kannaði utanrmn. þá hlið málsins er sneri að alþjóðlegum samningum. Við yfirferð á málinu kom í ljós að engir annmarkar voru á því að Íslendingar gætu hafið hvalveiðar með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, þ.e. engir formlegir annmarkar á því. Í bréfi til sjútvn. kom fram að utanrmn. gerði ekki athugasemd við málið.

Í nefndinni var hins vegar ekki tekin efnisleg afstaða til málsins og raunar var það utan verkahrings utanrmn. Nefndarmenn í utanrmn. eru því óbundnir af því hvaða efnislega afstöðu þeir taka til tillögunnar. Þetta var nefndarmönnum í sjútvn. ljóst, enda sátu þrír þeirra þann fund utanrmn. sem fjallaði um málið.