Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 20:52:36 (4565)

1999-03-09 20:52:36# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[20:52]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þingnefndir starfa auðvitað á ýmsan hátt, geri ég ráð fyrir. Ég kannast vel við umsagnir nefnda sem fá mál til athugunar eftir að því er formlega vísað til viðkomandi nefndar. Við hv. þm. eigum báðir sæti í umhvn. þingsins. Við höfum þar fjallað um þingmál og leyft okkur að hafa skoðanir á því jafnvel út fyrir þrengstu umhverfissjónarmið. Þegar um svona mál er að ræða þykir mér mjög sérstakt að utanrmn. skuli takmarka athugun sína á máli sem þessu við samhengi málsins við alþjóðasamninga eins og hv. formaður greinir frá. Sjálfur átti ég í fullan áratug, að mig minnir, sæti í utanrmn. og einmitt þegar mikið gekk á í þessum málum. Þá var sannarlega reynt að skoða þessi mál frá öllum hliðum í nefndinni. Mér sýnist því að hv. utanrmn. sé farin að takmarka umfjöllun sína um mál býsna þröngt. Auðvitað er það nefndarinnar að móta starfshætti sína og ég ætla ekki vera með nein stóryrði út af því en engu að síður þykir mér mjög sérkennilegt að ekki skuli farið víðar um völl en hv. formaður nefndarinnar segir.

Kannski á það einhverja skýringu í því að í utanrmn. sitja ágætir fulltrúar sem einnig eiga sæti í sjútvn. Ég hef orðið var við sama veikleika við slíka blöndu, einmitt í umhvn. þingsins. Þar sitja fulltrúar úr fjárln. og það hefur greinileg áhrif á viðkomandi nefndarmenn, að þeir eiga þar sæti, þegar um fjárveitingu til umhverfismála er að ræða.