Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 20:57:25 (4568)

1999-03-09 20:57:25# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GE
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[20:57]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka þátt í þessari umræðu um hvalveiðar. Ég hef rætt um þau mál í hvert skipti sem þau hefur borið á góma. Kannski væri rétt að rifja upp að í sumar verða líklega 10 ár frá því að síðasti hvalurinn var dreginn á land í Hvalfirði. Þá lauk hvalveiðum sem stundaðar höfðu verið í rannsóknarskyni í um það bil fjögur ár, þ.e. frá því að ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni tók gildi árið 1986. Íslensk stjórnvöld hafa síðan alltaf ætlað að vinna að undirbúningi þess að Íslendingar geti hafið hvalveiðar á ný.

Ég verð að segja, herra forseti, að á þessu tímabili hafi undirbúningur að hvalveiðum farið fyrir ofan garð og neðan og málið í rauninni verið látið liggja. Það sést best á þeirri tillögu sem við erum nú að afgreiða. Við erum ekki tilbúin, samkvæmt þeirri tillögu sem fyrir liggur.

Það eru fjölmörg atriði sem verður að vinna að og þurfa að vera ljós áður en hvalveiðar verða hafnar. Að sjálfsögðu ráðum við Íslendingar sjálfir hvenær við byrjum þessar veiðar en við verðum líka að vita hvaða afleiðingar þær geti haft. Það verður að liggja fyrir hvernig farið getur fyrir matvælavinnslufyrirtækjum sem byggja á fiskafurðum. Nú er svo komið, ég sá það í heimsóknum mínum vítt um landið á sl. sumri, að það er verið að vinna nánast tilbúna rétti í frystihúsum. Þau geta vart lengur talist frystihús heldur matvinnslufyrirtæki. Við verðum að vera viss um að sú starfsemi sé ekki í hættu ef við hefjum hvalveiðar. Þar ásaka ég stjórnvöld, ekki sitjandi ríkisstjórn heldur ríkisstjórnir liðinna ára, fyrir að hafa ekki unnið sína heimavinnu.

[21:00]

Ég ætla ekki að tíunda nákvæmlega á hvaða markaði þessar afurðir eru fluttar sem ég er að geta um hér, þ.e. neyslupakkningarnar. Ég veit t.d. að á Vesturlandi, nánar tiltekið á Akranesi, er verið að vinna matvæla- eða matarpakka á vegum Íslensks-fransks eldhúss sem mér skilst að sé í mikilli hættu, ef hvalveiðar hefjast strax, því varan fer beint á Bandaríkjamarkað. Um er að ræða mjög verðmæta vöru og ef lokast fyrir þá vinnslu í einu vetfangi þá töpum við sennilega á annað hundrað millj. aðeins við það eitt. Ég er því að segja að menn verða að vita hvað eigi að fara að gera og afleiðingar þess.

Herra forseti. Ég hef alltaf sagt í mínum ræðum um þessi mál að við megum ekki gleyma mikilvægi hvalveiða fyrir atvinnu og verðmæti. Það vegur á hinn bóginn á móti því sem ég var að segja rétt áðan. Það má rifja það upp að síðustu árin sem veiðar voru stundaðar af fullum krafti, þá var framleiðsluverðmæti, ef það er reiknað til núverandi verðlags, einhvers staðar í kringum 2 milljarða á ári. Líka má rifja upp að um það bil 250 manns störfuðu hjá Hval hf. á hvalvertíðinni og við hrefnuveiðar voru fjölmargir. Það má reikna út að um það bil 120--150 störf hafi verið við hvalveiðar á þeim tíma og í þjónustu sem fylgdi þeirri starfsemi. Mér er ljóst að við getum hafið hvalveiðar án nánast nokkurs tilkostnaðar. Það er eiginlega allt til. Við eigum skipin. Við höfum þekkinguna. Hún er ekki horfin. Við eigum vinnslustöðvar og það er alveg örugglega nægur mannskapur til að hefja veiðar, a.m.k. veiðar á hrefnu því mér sýnist ljóst vera að verði hvalveiðar hafnar hér við land á næstunni, þá verði um hrefnu að ræða. Auðvitað má geta þess að mikil andstaða er við hvalveiðar víða um heim og þarf í rauninni ekki að gera það hér. Í dag hafa margir rætt andstöðuna og hættuna sem þessu fylgir. En ég má til með að vara við um leið og ég nefni þessi mál.

Einnig má geta um það sem margsinnis hefur komið fram, að heildarfæða hvalanna, þ.e. allt sem þeir leggja sér til munns, er sennilega 4 millj. tonna og þar af kannski yfir 1 millj. tonn af fiski. Það eru ekki lítil verðmæti eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson rakti svo rækilega í vetur þegar verið var að ræða um þessi mál eftir fyrispurn til hæstv. sjútvrh.

Ég tel að það eigi að vera stefna okkar Íslendinga að nýta allar auðlindir sjávar á grundvelli sjálfbærrar þróunar, þar á meðal hvali. En ég játa að eins og á stendur, eins og ég rakti áðan, meðan menn hafa ekki undirbúið þessi störf nægjanlega vel, verðum við að vita hvaða afleiðingar það hefur að hefja veiðar á hval. Við verðum að vita hvernig við ætlum að bregðast við þeim aðgerðum sem munu beinast að okkur þegar þar að kemur. Sjómenn bíða eftir að hvalveiðar hefjist og ég hygg að þeir eins og flest okkar, telji fulla þörf á að hefja veiðarnar. En það verður að gerast með varfærni. Sem meðflutningsmaður þessarar till. um hvalveiðar, eini stjórnarandstæðingurinn sem er meðflutningsmaður þessarar till., hvet ég til þess að málið verði afgreitt núna.

Herra forseti. Ég læt þessu lokið. Þetta er stutt og laggott að mínu viti.

(Forseti (ÓE): Já, mjög svo. Og forseta líka.)