Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:22:16 (4571)

1999-03-09 21:22:16# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:22]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var í þessum sal þegar hæstv. menntmrh. flutti ræðu sína og ég get sagt hv. þm. það að mér kom nokkuð á óvart að heyra að þetta væri afstaða ríkisstjórnarinnar miðað við þá fundi sem ég hef sem nefndarmaður í hvalveiðinefndinni setið með oddvitum ríkisstjórnarinnar. Því verð ég að segja að þetta kom mér nokkuð á óvart og þess vegna, einmitt þess vegna læðist að mér sá grunur að e.t.v. eigi ekkert að gera með samþykktina eins og hún er núna. Menn ætla jú að aflétta þessu banni sem Alþingi hefur sett á hvalveiðar, en svo verði ekkert meira gert. Hv. flm. nefndi að hann hefði flutt þetta mál fjórum sinnum á átta árum og ég held að jafnoft hafi það dagað uppi í þinginu án þess að vera samþykkt. Hann virðist í dag og í kvöld vera að uppskera árangur erfiðis síns þessi átta ár en því miður óttast ég, eins og ég sagði áðan, að vegna þess hvernig þetta er lagt upp muni það leiða til þess að hvalveiðar fari einfaldlega aldrei af stað.