Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:25:39 (4573)

1999-03-09 21:25:39# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:25]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sem hér var að ljúka máli sínu hefur ekki miklar áhyggjur af Pelly-lögunum í Bandaríkjunum, eða refsiaðgerðum Bandaríkjamanna gagnvart Íslendingum. Ég minni á nýlegt bananastríð sem á er skollið milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Ef Bandaríkin láta sig hafa það að fara í stríð við Evrópusambandið út af jafnlitlu og ómerkilegu máli og manni finnst það vera, þá held ég að standi nú lítið í mönnum þar að beita sér gegn Íslendingum og íslenskum útflutningi þegar spurningin er um veiðar á hval ef við höfum ekki unnið heimavinnuna okkar áður. Menn voru að vinna þá heimavinnu og ég veit að í þessari tillögu er talað um að hún skuli jú unnin fyrst, en ég held það hefði verið nær að vinna hana fyrst og segja síðan: Nú hefjum við hvalveiðar með það sama.