Vegtollar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:40:59 (4581)

1999-03-09 21:40:59# 123. lþ. 82.21 fundur 45. mál: #A vegtollar# þál. 10/123, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:40]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þetta verður örstutt. Ég vildi bara ákveðið halda því til haga og vekja athygli á þeim breytingum sem hafa verið gerðar á tillögutextanum eins og hann kom upphaflega til nefndarinnar og einnig því sem um getur í grg., að nefndin er í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til ágætis vegtolla sem slíkra heldur fyrst og síðast að opna á það að menn fari yfir kosti og galla þeirrar aðferðar sem hin upphaflega tillaga gerði ráð fyrir, þ.e. hvort hugsanlegt sé að vegtollar með kostum og göllum þeirra geti virkað til stýringar á umferð og jafnvel til þess að draga úr umferð að einhverju leyti og til þess að hafa víðfeðm áhrif á samgöngumál og umhverfismál ef svo ber undir. Hér er nefndin fyrst og síðast að leggja til, eins og tillögutextinn segir berum orðum, að gaumgæft verði hvort unnt sé og skynsamlegt að beita þessari aðferð.

Þessu vildi ég halda ákveðið til haga að hvorki ég né raunar nefndin er að taka, eins og segir í grg., afstöðu til ágætis þess að taka upp vegtolla í stórum stíl.