Rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 21:42:49 (4582)

1999-03-09 21:42:49# 123. lþ. 82.22 fundur 378. mál: #A rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn# þál. 11/123, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[21:42]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1045 um till. til þál. um rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn. Nefndin fjallaði um málið og fékk á fund sinn fulltrúa Siglingastofnunar Íslands auk umsagna sem nefndinni bárust frá sömu stofnun. Upphaflega tillagan gerði ráð fyrir því að samgrh. yrði falið að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hefji sem fyrst rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn.

Við meðferð málsins í hv. samgn. kom fram að ýmsar minni háttar athuganir væru þegar hafnar. M.a. hefðu farið fram og verið unnin frumdrög að stækkun hafnarinnar og miðað við annars vegar 10 þúsund tonna og hins vegar 20 þúsund tonna vöruflutningaskip sem væru að koma inn í höfnina. Á hinn bóginn hefðu engar hagrænar undirbúningsrannsóknir verið framkvæmdar á stækkun hafnarinnar og heldur ekki meiri háttar rannsóknir sem þyrfti að gera, svo sem eins og líkanagerð eða þess háttar. Þetta er hins vegar mál sem krefst allmikilla rannsókna eðli málsins samkvæmt og þess vegna telur nefndin eðlilegt að undirbúningsrannsóknir og hagrænar athuganir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn fari fram. Að þeim loknum verði unnt að taka ákvörðun um hvort ráðist verði í gerð slíkrar hafnar.

Þess vegna leggur samgn. til tilteknar breytingar á þessari þáltill. og að tillögu nefndarinnar hljóðar tillögugreinin þá svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hefji sem fyrst undirbúningsrannsóknir og hagrænar athuganir á stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn.``

Hv. þm. Stefán Guðmundsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir þetta nál. rita auk formanns og frsm. sem hér stendur, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Egill Jónsson, Ragnar Arnalds, Árni Johnsen, Magnús Stefánsson og Kristján Pálsson.