Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:05:42 (4586)

1999-03-09 22:05:42# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, JHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:05]

Jónas Hallgrímsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég minnist þess ekki að hafa verið prófdómari hér í þessum stól. Ég kannast hvorki við að hafa notað einkunnagjöfina frá 0 til 10 eða frá mínus 23 til 8. Það er nú, virðulegur forseti, Örsted, ef ég man rétt.

Ég sagði að hv. þingmönnum Austurl. hefði verið falið þetta mál ásamt samgrh., hver sem hann var um það leyti. Ég eftirlæt svo öðrum að gefa einkunnir. Það fólst ekki í mínum orðum á nokkurn hátt.

Hins vegar geri ég mér alveg grein fyrir því, eins og ég rakti í ræðu minni, að hv. þingmönnum Austurl. hefur reynst mjög erfitt að fóta sig í þessu máli. Nú síðast hafa atvinnudraumar okkar um stóriðju sem hv. þingmenn þekkja, tengst þessu máli þannig að ákvörðun þingmanna hefur m.a. dregist vegna þess. En það breytir ekki því að samgönguyfirvöld hafa ekki ljáð máls á því að standa við það sem hæstv. Alþingi hefur sett á blað í þeim áætlunum sem fyrir liggja. Það á við um eftirlitsskyldu allra þingmanna, ekkert frekar austfirskra þingmanna en annarra. Ég vil að það komi skýrt fram. Því hefur ekki verið framfylgt sem í vegáætlun fólst þau ár.

En ég frábið mér einkunnagjöf um hv. samþingsmenn mína og félaga af Austurlandi.