Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:32:42 (4591)

1999-03-09 22:32:42# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það ákaflega vel að hv. þm. fagni liðsstyrknum frá samfylkingarmönnum að afloknum kosningum því að ekki er vanþörf á. En af því að hann þorði að fara í samanburð á framkvæmdum í vegamálum á síðasta kjörtímabili á krepputímunum og á yfirstandandi kjörtímabili á góðæristímum, þá þori ég svo sannarlega í þann samanburð í hverju einasta kjördæmi, hv. þm.

Auðvitað var ekkert um það að ræða, og það er ómerkilegur útúrsnúningur að halda því fram að einhverjum hafi komið það til hugar og engum datt það í hug raunar, að fara í framkvæmdir við jarðgöng á Austurlandi á sama tíma og menn voru í fullum gangi við jarðgangagerð á Vestfjörðum. Það þurfti auðvitað að ljúka þeim fyrst. Það tókst á síðasta kjörtímabili. En áformin voru þau að þá í kjölfarið færi í gang vinna við næstu jarðgöng.

Að undanskildum Hvalfjarðargöngum sem eru auðvitað sérverkefni og unnið að miklu leyti af hálfu einkaaðila og sveitarfélaga og notendur borga brúsann að mestu leyti þó að síðasta ríkisstjórn hafi stutt framgang þess verks í upphafi og raunar ríkisstjórnin sem nú situr einnig, þá hefur í þeim efnum nákvæmlega ekkert gerst, og ekki er einu sinni fyrirliggjandi ákvörðun í málinu. Þetta er kjarni málsins og við þann veruleika verður hv. þm. Jón Kristjánsson að lifa eins og ríkisstjórnin öll.