Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:34:33 (4592)

1999-03-09 22:34:33# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:34]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er yfirleitt viðkvæðið ef talað er um fortíðina í þessum sal að heimskreppan mikla hafi verið á síðasta kjörtímabili. Það er yfirleitt viðkvæðið þegar einhver samanburðarfræði er uppi. Það er auðvitað mjög orðum aukið. Það er að vísu alveg rétt að núv. ríkisstjórn hefur komið málum þannig fyrir að uppsveifla er í atvinnulífinu og hægt hefur verið og er búið að leggja grunn að því að taka á bæði í vegagerð og fleiru. Samþykkt hefur verið metnaðarfull vegáætlun þó að jarðgangagerð sé ekki þar inni og staðið hefur verið við hana með fjárlögum þessa árs. Það hefur verið lagður grunnur að því vegna þess að ríkisstjórnin hefur stuðlað að uppbyggingu atvinnulífs hér í landi og stýrt efnahagsmálum þannig að traustur grunnur hefur verið til staðar til að taka á í ýmsum málum. Ég er því alveg óhræddur við samanburðarfræði og hún er ágæt í sjálfu sér. En það sem skiptir meira máli samt en samanburðarfræðin, þó að hún sé góðra gjalda verð, er að tala um framtíðina. Þetta mál sem hér er til umræðu snýst um framtíðina en taka þarf á fleiri málum og það skiptir náttúrlega höfuðmáli. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma af dýrmætum tíma á síðustu dögum þingsins í samanburðarfræðina. Það gefst nægur tími til þess síðar þannig að ég læt hér staðar numið.