Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:00:13 (4595)

1999-03-09 23:00:13# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:00]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki viðstödd þegar þetta nál. var afgreitt úr samgn. en það er alveg ljóst að þegar þessi tillaga, sem hv. 5. þm. Austurl. virtist vera að mæla hér fyrir, var til umræðu í nefndinni þá var ekki meiri hluti fyrir því að samþykkja hana. Aftur á móti hefur þetta greinilega verið afgreitt þannig að það er allt önnur tillaga sem verið er að samþykkja hér. Og það eina sem er sameiginlegt með tillögu hv. þm. og þeirri tillögu sem samgn. samþykkir er að orðið ,,jarðgöng`` kemur fyrir í báðum tillögunum. Það er ekki mikið meira sameiginlegt með þessum tillögum.

Fyrr í dag var verið að tala um að einhver málflutningur ætti heima í brandarabanka. Þá liggur nú við að þessi málflutningur sjálfstæðismanna í málinu eigi heima í brandarabanka því að þetta er alveg fyrir neðan allar hellur.

Ég furða mig á þessum vinnubrögðum og furða mig á því að þingnefnd skuli afgreiða frá sér að verið sé að samþykkja till. til þál. um undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Síðan kemur tillagan sem samþykkt er og hún er bara um allt annað efni, (Gripið fram í.) till. til þál. um langatímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi, og Alþingi álykti að fela samgrh. að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi.

Þetta er bara allt annað mál. Og vera síðan að lesa upp úr einhverjum umsögnum um allt aðra þáltill. um jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Ég efast ekkert um að það geti orðið ágætis göng verði þau gerð en þetta er bara allt annað mál og allt önnur tillaga sem verið er að samþykkja hérna.