Íslenski hesturinn

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:34:23 (4613)

1999-03-09 23:34:23# 123. lþ. 82.24 fundur 342. mál: #A íslenski hesturinn# þál. 12/123, EKG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:34]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við það að heyra frásögn hv. frsm. af því að mál þetta hefði verið sent til umsagnar skrifstofu forseta Íslands rifjuðust upp fyrir mér orð sem stundum féllu fyrr á öldinni: Þetta eru greinilega söguleg tíðindi. Ég geri ráð fyrir að fyrir ýmsum fleirum rifjist ýmislegt upp er þessi orð eru látin falla.

Það sem vekur athygli mína við þetta mál er fyrst og fremst það að á sínum tíma hlaut þetta allnokkra opinbera umræðu. Það sem einkanlega vekur athygli við umfjöllun um þetta mál er að hér sýnist mér hv. landbn. hafa farið svipaðar leiðir og við gerðum í samgn. Alþingis fyrir skömmu. Landbn. hefur metið þetta mál frá grunni, farið í það mjög sjálfstætt og komist að efnislegri niðurstöðu sem í veigamiklum atriðum er frábrugðið því sem getur að líta í sjálfri tillgr. sem lögð var fyrir landbn. þingsins.

Það er hið ágætasta mál vegna þess einfaldlega að þannig á þingnefnd að vinna. Hún á að vinna sjálfstætt að málatilbúnaði sínum. Stundum er undan því kvartað í þessum ræðustóli að menn vinni ekki sjálfstætt í nefndum Alþingis, menn séu í einhvers konar hlutverki stimpilpúðans fyrir framkvæmdarvaldið og þori ekki að hreyfa legg né lið eða breyta nokkrum hlut.

Hér er að vísu á ferðinni þingmannatillaga, hin prýðilegasta tillaga út af fyrir sig og athyglisverð hugmynd. Landbn. Alþingis hefur hins vegar kosið að hverfa frá grundvallarhugmyndinni. Allir ættu að sjá, þegar þeir lesa þessa tillögu til þál., út á hvað hún gengur. Hún gengur út á að búa til landslið hestamanna. Það er grundvallaratriðið enda kemur það fram í heiti tillögunnar, Tillaga til þál. um landslið hestamanna.

Nú skulum við leita með logandi ljósi að hugmyndinni um ,,landslið hestamanna``. Ef við lesum tillögugreinina eins og hv. landbn. Alþingis afgreiddi hana þá kemur í fyrsta lagi í ljós að hún breytti heiti tillögunnar. Hún heitir ekkert lengur tillaga til þál. um landslið hestamanna. Enda er það ekki skrýtið, það hugtak finnst ekki þegar við skoðum brtt. landbn. Það er horfið frá því og talað almennt um að gott sé nú að huga að því að landbrh. skoði það í samvinnu við önnur stjórnvöld og samtök að íslenskir hestar og hestamenn gegni veigamiklu hlutverki við móttökur, o.s.frv.

Hér er merkingunni og hugmyndinni sem liggur að baki tillögunni snúið við í grundvallaratriðum. Þetta er ekki ámælisvert. Hér hefur landbn. einfaldlega farið efnislega yfir málið og skoðað með hliðsjón af sögulegri umsögn frá skrifstofu forseta Íslands, Bændasamtökunum, Félagi tamningamanna og Íþróttasambandinu, og komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra væri að hverfa frá þessari hugmynd og setja fram annað mál en gera það samt sem áður í sama farvegi og till. til þál. um landslið hestamanna hafði skapað. Hið nákvæmlega sama höfum við oft á tíðum séð, að mál koma mjög breytt út úr þingnefndum og án þess að það veki sérstakar spurningar.

Ég vil því bara, virðulegi forseti, ekki síst út af þeirri umræðu sem fram fór áðan, vekja athygli á því að hér er um að ræða nokkuð hliðstætt mál. Efni tillögunnar tekur grundvallarbreytingum í meðferð þingsins enda fór það ekkert á milli mála þegar hæstv. forseti tilkynnti um að þetta mál væri komið á dagskrá. Þá brast á skellihlátur í þinginu. Auðvitað var þeim þingmönnum, sem höfðu kynnt sér málin sem liggja hér fyrir, orðið ljóst hvaða mál ætti að ræða og hvernig það var allt saman í pottinn búið. Auðvitað brast hér á skellihlátur. Það var sérkennilegt fyrir hinn mæta hv. þm. Ágúst Einarsson, eftir að hafa fundið að efnismeðferð hv. samgn., að hafa það hlutskipti að mæla fyrir nál. landbn. með breytingum í svipuðum dúr. Þar var horfið frá grundvallaratriði þáltill. og farið almennum orðum um að gaman væri að hafa svolítið af hestum og hestamönnum þegar útlendingar koma í heimsókn. Er það ekki grundvallarbreyting frá því að hafa landslið hestamanna?

Það á að hafa hesta og hestamenn einhvers staðar svona í nágrenninu þannig að útlendingar geti séð að til séu íslenskir hestar og knapar. Það sem í tillögunni felst er út af fyrir sig ágæt hugmynd. Ég mundi fagna því að mega eiga þess kost að fá að standa að þessari tillögu með landbn. Ég hefði gert það fyrirvaralaust ef ég hefði setið í þeirri nefnd og væntanlega komist að sambærilegri niðurstöðu. Ég vek hins vegar athygli á því, virðulegi forseti, að hér hefur landbn. snúið við tillögu sem lá fyrir. Um það er ekkert nema gott að segja. Nefndir eiga að vinna sjálfstætt að málum, til þess höfum við þingmenn margoft hvatt úr þessum ræðustól. Það hefur sannast hér í kvöld í tveimur tillögum að þannig hafa nefndir þingsins starfað.