Íslenski hesturinn

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:45:46 (4616)

1999-03-09 23:45:46# 123. lþ. 82.24 fundur 342. mál: #A íslenski hesturinn# þál. 12/123, SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er satt best að segja nokkuð kátlegur málflutningur sem hér fer fram, verð ég að segja alveg eins og er. Ekki er ég viss um að hv. 1. þm. Vestf. og formaður samgn. bæti stöðu sína að taka gagnrýni með þeim hætti sem hann gerir hér og leggjast þá í hernað gegn vinnu landbn. í alls óskyldu máli og draga jafnvel athyglina að því að forseti kunni að hafa farið, eða ég veit ekki hvort maður átti að skilja það svo, með einhverjum hæpnum hætti með vald sitt áðan við fundarstjórnina.

Ég held að það sé hin merkasta tillaga sem hér er á ferðinni, herra forseti, og það var erindi mitt hingað að ræða hana efnislega en ekki aðra hluti. Sú hugsun sem fram kemur í þessu máli, þ.e. að nota íslenska hestinn við opinberar athafnir og móttökur þjóðhöfðingja og annað slíkt, eða kynna hann og ætla honum það hlutverk, er auðvitað eitt og hið sama mál. Þá reynslu þykist ég hafa af hestamennsku að það mundi ganga brösótt ef engir knapar væru á hestunum að nota þá mikið við opinberar móttökur. Ég held að hv. þm. Egill Jónsson verði að hafa það í huga að þó að menn kunni að breyta fyrirsögn tillögunnar yfir í það að hún fjalli um íslenska hestinn er það ekki þar með sagt að menn ætli hrossunum að vera án reiðmanna þegar þau skipa heiðursvörð við móttökur erlendra þjóðhöfðingja. En þá mættu þau a.m.k. vera vel tamin og jafnvel þó Hornafjarðarhross væru er ég ekki viss um að það gengi áfallalaust fyrir sig að hafa þau knapalaus til að mynda snyrtilegar raðir og beinar við opinberar móttökur.

Ég segi bara eins og Danirnir, herra forseti, það hlýtur að vera í lagi að sletta því núna hérna tólf mínútum fyrir tólf, ,,meningen er god nok``. Ég held að þetta sé ágætis hugsun. Eins og danskurinn segir er hugsunin á bak við tillöguna ágæt og ég er henni sammála og ég tel reyndar að landbn. hafi lagað hana til. Ég held að tillagan hafi í byrjun verið óþarflega ítarleg eða lagt hafi verið óþarflega nákvæmlega fyrir hvernig að þessu skyldi staðið. Eðlilegra er að það sé einfaldlega þróað í framhaldinu eins og tillagan gerir í raun ráð fyrir eftir þessar ágætu breytingar eða lagfæringar á henni sem landbn. leggur til.

Þá er ekki síður sögulegt, herra forseti, og það verðskuldar að komast inn í þingtíðindin, ekki bara einu sinni heldur a.m.k. þrisvar, að umsögn hafi borist um þingmál frá skrifstofu eða embætti forseta Íslands. Það eru verulega söguleg tíðindi eins og hér hefði stundum verið sagt, svo ekki sé meira sagt, og spurning hvort þetta verður upphafið að öðru meira, þ.e. að forsetaembættið eða skrifstofa forseta Íslands fari að verða virkur umsagnaraðili um hin ýmsu þingmál. Þau gætu auðvitað mörg borið á góma, verið til umfjöllunar í þinginu sem tengdust embætti forsetans, ekkert síður en þetta mál, þ.e. spurningin um notkun á íslenska hestinum í heiðursverði eða annað því um líkt.

Mér finnst jafnvel hilla undir þá tíma, herra forseti, að við eignumst þarna vísi að riddaraliði. Ég veit að þá gleðst hæstv. menntmrh., Björn Bjarnason. Kannski er þrátt fyrir allt að læðast bakdyramegin í gegnum þingið viss vísir að hugmyndum hans um hinn íslenska her, þ.e. að riddaralið standi heiðursvörð við móttökur erlendra þjóðhöfðingja og er þetta þá allt að falla í einn mikinn farveg, herra forseti, það verð ég að segja.

Ekki er nokkur vafi á því að ef það er einhver skepna á jarðríki umfram sauðkindina sem Íslendingum ber að heiðra er það auðvitað hesturinn, þarfasti þjónninn, og á þessum tveimur dýrum hefur sennilega tilvist þjóðarinnar byggst umfram allt annað lengi vel um aldir. Svo mætti kannski bæta þorskinum við sem þriðja kykvendinu sem skipti þarna verulegu máli og gerir enn.

Mér finnst líka saga sambúðar íslensku þjóðarinnar við hestinn vera svo fullkomið dæmi um jafnvægi í lífinu þar sem þarfasti þjónninn var undirstaða mannlífsins í landinu. Hann fylgdi hverjum Íslendingi frá vöggu til grafar því oftast var byrjað á því þegar nýr þjóðfélagsþegn, leit dagsins ljós að sækja yfirsetukonu eða ljósmóður, að sjálfsögðu á hesti, til að aðstoða við fjölgunina, og síðan tók lífið við og endaði þannig að hestur fór með viðkomandi í kirkjugarðinn þegar hann hafði lokið jarðvist sinni. Þeir sem eftir lifðu átu svo hrossið þegar það hafði lokið hlutverki sínu. Þar með var þessi gjörnýting og farsæla sambúð fullkomnuð þannig að vandfundin eru dæmi um annað betra. (Gripið fram í: Þetta er sjálfbær þróun.) Já, þetta var mjög sjálfbær þróun, sjálfbær sambúð getum við sagt, þessara tegunda í náttúrunni eða lífríkinu og í raun og veru algjörlega fullkomin.

Auðvitað eru fleiri dæmi þekkt um þetta. Ég get sagt eina írska sögu, af því að það er svona lágnættisstemning yfir þessu, sem endurspeglar þetta líka. Það mun hafa verið þannig í Írlandi á síðustu öld að þá var þar erfitt árferði og þjóðin bjargaði sér aðallega á kartöflum, eins og kunnugt er. Sagnir herma að stundum hafi menn neyðst til að grípa til örþrifaráða og einu sinni hafi írsk fjölskylda orðið að grípa til þess ráðs að snæða heimilishundinn og var þá hart í ári. Nú, þetta gera Kínverjar og láta sér ekki verða flökurt af. En þegar máltíðinni var lokið og eftir voru beinin tóm á diskinum sagði einhver heimilismaður: Aumingja Pabló, það er verst að þú skulir ekki geta fengið þessi bein. Þannig er sú saga.

Þetta er svipuð saga af sambúð manns og dýrs eins og sambúð íslensku þjóðarinnar við hestinn sinn hefur verið gegnum tíðina.

En þetta er sem sagt, herra forseti, til þess að sýna hestinum sóma og virðingu og gera veg hans sem mestan um ókomin ár. Það ætlum við m.a. að gera með þessu, að láta hann skipa sérstakan heiðurssess á hátíðisstundum og þegar við viljum sýna okkar bestu hliðar eins og þegar við tökum á móti stórmennum utan úr heimi og gera þeim allan sóma. Ég er prýðilega sáttur við að málið verði fellt í þann farveg sem brtt. landbn. felur í sér.