Íslenski hesturinn

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 23:53:03 (4617)

1999-03-09 23:53:03# 123. lþ. 82.24 fundur 342. mál: #A íslenski hesturinn# þál. 12/123, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[23:53]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að leiðrétta hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann segir að ég hafi verið á einhvern hátt að gagnrýna starfsemi eða störf landbn. Þvert á móti, ég bar stöðugt lof á hana alla ræðu mína. Ég vakti athygli á því að hér hefði landbn. fengið til umfjöllunar till. til þál. um landslið hestamanna. Hún komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri skynsamlegt að hafa nokkurt fyrirbrigði sem héti landslið hestamanna.

Óskir hv. þm., 4. þm. Norðurl. e. um að afgreiðsla landbn. væri vísir að einhverju riddaraliði er því miður víðs fjarri því að landbn. hafnaði eiginlega þeirri tillögu. Hún lagði fremur til að það yrði sett í hendur landbrh. hvernig ætti að leyfa hestum að vera í námunda við komur erlendra stórmenna og við önnur hátíðleg tækifæri.

Í raun og veru var það sem ég vakti athygli á að landbn. hefði farið efnislega ofan í þetta mikla mál, komist að þeirri niðurstöðu að það væri ótækt eins og það lægi fyrir, það yrði að breyta því algjörlega í grundvallaratriðum. Hún kannaði þessi mál mjög víða, sýndi mikla hugkvæmni í því að leita umsagnar hjá umsagnaraðilum sem ekki hefði verið leitað umsagnar hjá áður. Tók málið síðan til efnislegrar meðhöndlunar og nú hefur verið upplýst að hv. þm. Ágúst Einarsson hafði síðan frumkvæði að því að ganga í að breyta málinu efnislega, beitti sinni miklu og víðtæku þekkingu til að umskrifa textann, snúa honum alveg við, breyta efnislegri uppsetningu málsins algjörlega. Í ræðu minni áðan bar ég látlaust lof á landbn. fyrir að sýna það mikla sjálfstæði, það mikla frumkvæði og þá miklu hugkvæmni í því að meðhöndla málið og vildi bara ítreka það að ég tel að það sé eðlilegt að nefndir vinni með þeim hætti.