Dagskrártillaga

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 10:49:07 (4656)

1999-03-10 10:49:07# 123. lþ. 83.91 fundur 343#B dagskrártillaga# (aths. um störf þingsins), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst sjálfsagt og reyndar mjög þarft að taka þetta mál á dagskrá og fá hér umræðu um sjávarútvegsmál. Þó að sú aðferð sem hér er lögð til af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, Sighvati Björgvinssyni og Lúðvík Bergvinssyni kunni að orka mjög tvímælis --- ég held reyndar að ýmislegt annað væri nærtækara og skynsamlegra að gera ef menn vildu einhvern veginn reyna að bæta sérstaklega stöðu smærri báta og dagróðrabáta --- þá mundi fylgja henni sá ótvíræði kostur, ef frv. kæmist á dagskrá og til umræðu, að við ættum þess kost að ræða stöðuna og viðskilnað hæstv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Þá á ég ekki síður við það hver er að verða niðurstaða í sjútvn., eða öllu heldur ekki niðurstaða, í þeirri vinnu sem þar hefur staðið yfir um skeið og lotið að því að skoða vanda dagróðrabátanna sérstaklega og gera breytingar og lagfæringar á þeim lögum sem sett voru í janúar í miklu fljótræði.

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að fáist þessi tillaga ekki tekin til umræðu, þá mun ég halda til streitu ósk sem ég bar fram í gær um að fá hálftíma umræðu utan dagskrár um viðskilnað ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og þá um vanda dagabátanna sérstaklega. Ég segi já.