Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:02:29 (4661)

1999-03-10 11:02:29# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:02]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við fáum stærsta hluta útflutningstekna okkar fyrir sjávarafurðir og ferðaþjónustu. Frá aðilum í þessum atvinnugreinum hafa komið eindregin andmæli gegn því að hvalveiðar verði hafnar og viðvaranir um afleiðingar. Með því að hefja hvalveiðar og jafnvel með því einu að samþykkja yfirlýsingu þess efnis er verið að tefla stórfelldum hagsmunum í tvísýnu fyrir lítinn ávinning, jafnvel engan. Það mun kosta gríðarlegt fé og fyrirhöfn ef menn ætla að freista þess að snúa áliti bæði yfirvalda og almennings hjá okkar helstu viðskiptaþjóðum sem eru flestar mjög andsnúnar hvalveiðum.

Okkur ber samkvæmt hafréttarsáttmálanum að hafa samráð um nýtingu sjávarspendýra á vettvangi viðurkenndra alþjóðastofnana. Ef við þykjumst þess umkomin að ganga gegn vilja og ráðum samstarfsþjóða okkar í þessu máli, þá óttast ég að við eigum erfiðara með að tryggja liðsinni þeirra í mikilvægum hagsmunamálum á sviði umhverfismála, málum sem eru okkur miklu mikilvægari en að hefja einhverjar hvalveiðar af þessu tagi. Ég segi nei, herra forseti.